ÍR bikarmeistari utanhúss 2018

Á bílastæðinu við eitt fegursta vallarstæði landsins stígur íþróttamaðurinn út úr bílnum og teygir úr sér. 520 metrar yfir Borgarfjörðinn að baki fyrir þá sem koma úr suðri, 520 km fyrir þá sem koma úr norðri, eða svona þar um bil. Íþróttamaðurinn rennir jakkanum alla leið upp í háls og togar húfuna niður fyrir eyru. Það blæs úr norðri og einn og einn rigningardropi fellur ofan úr himnum. Þeim átti þó eftir að fjölga. Engan bilbug má þó finna á íþróttamanninum sem gengur af stað og inn á völlinn. Hann horfir yfir til Borgar á Mýrum og andar að sér orku Egils Skallagrímssonar sem þar bjó forðum. Hann beygir sig niður og strýkur yfir vínrautt tartanið. Hér á ég heima hugsar hann. Í Borgarnesi, í Reykjavík eða í fjarlægu landi. Það skiptir ekki máli. Frjálsíþróttavöllurinn er mitt heimili. Hér er minn staður, hér er mín stund.

Þetta fór eflaust í gegnum huga margra keppenda rétt fyrir 52. bikarmót FRÍ. Um það bil þremur klukkustundum síðar áttu ÍR-ingar eftir að standa uppi sem bikarmeistarar í heildarstigakeppninni. FH í kvennaflokki og ÍR í karlaflokki.

FH með tveggja stiga forystu eftir fimm greinar

Mótið hófst á sleggjukasti karla þar sem Vilhjálmur Árni Garðarsson úr FH sigraði með miklum yfirburðum. Hann kastaði sleggjunni 54,93 metra, í öðru sæti varð Dagur Fannar Magnússson, HSK. Þar næst var komið að 110 metra grindarhlaupi karla. Hörð barátta var á milli Einars Daða Lárusson, ÍR, og Ísaks Óla Traustasonar, UMSS. Ísak Óli kom í mark fyrstur á tímanum 15,57 sekúndum, 6/100 úr sekúndu á undan Einari Daða. María Rún Gunnlaugsdóttir, FH, sigraði í spjótkasti kvenna með 43,58 metra kasti. Átta stig í pottinn fyrir FH hjá Maríu Rún, þau fyrstu hjá henni af mörgum. Í þrístökki kvenna sigraði Agla María Kristjánsdóttir, Breiðablik, þegar hún stökk 11,88 metra. Aðeins þremur sentimetrum styttra stökk Hildigunnur Þórarinsdóttir, ÍR, annað sætið varð því hennar. Hinn gamalreyndi Mark Wesley Johnson, ÍR, sigraði stangarstökkið. Hann stökk hæst 4,60 metra og fyrsti sigur ÍR-inga á mótinu.

Fimm greinum er lokið þegar nú er komið til sögu. FH-ingar hafa tekið forystuna í stigakeppninni með 31 stig. ÍR og Breiðablik deila öðru sætinu með 29 stig hvort.

Tíu greinum lokið og allt hnífjafnt

Sjötta grein mótsins var 100 metra grindarhlaup kvenna. Þar sigraði Irma Gunnarsdóttir, Breiðabliki, á tímanum 15,25 sek í sterkum mótvind. Nánar tiltekið 2,5 metrar á sekúndu, 10% af leyfilegum ökuhraða á þjóðvegum landsins. Aðeins 4/100 úr sekúndu eftir henni varð Guðrún Dóra Sveinbjarnardóttir, FH. Í 100 metra hlaupi karla hélt Jóhann Björn Sigurbjörnsson, UMSS, sigurgöngu sinni áfram. Hann sigraði en eitt 100 metra hlaupið sitt í sumar á tímanum 11,19 sekúndum. Mótvindur 3,1 metrar á sekúndu. Í kvennahlaupinu sigraði Tiana Ósk Whitworth, ÍR, nokkuð örugglega. Tími 12,35 sekúndur, mótvindur 3,0 m/s. Í 400 metra hlaupi karla hefndi Ívar Kristinn Jasonarson, ÍR, fyrir tapið gegn Jóhanni, UMSS, í 100 metra hlaupinu og kom þar fyrstur í mark. Hjá konunum tóku ÍR-ingar einnig sigurinn. Það var Evrópumeistarinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, sem gerði það þegar hún hljóp hringinn á tímanum 55,71 sekúndu.

Nú er tíu greinum lokið og það hefur færst spenna í leikana. FH og ÍR er nú jöfn að stigum, 122 stigum skipta félögin bróðurlega á milli sín. 61 stig á hvort lið.

Aðeins eins stigs munur fyrir boðhlaupin

Í langstökki karla, elleftu grein mótsins, sigraði Þorsteinn Ingvarsson úr ÍR. Hann stökk lengst 7,13 metra og var jafnframt sá eini sem braut sjö metra múrinn að þessu sinni. Næsta grein að hefjast en ein sú síðasta til að klárast var hástökk kvenna. Stelpurnar þar létu vind og rigningu ekki á sig fá og þar náðist frábær árangur. Þrjár stukku yfir 1,70 metra og allar með persónuleg met. Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir, UMSS, sveif yfir 1,77 metra. María Rún, FH, önnur með 1,74 metra og Eva María Baldursdóttir, HSK, þriðja með 1,71 metra. Kúluvarp karla sigraði Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason, ÍR, þegar kúlan fór 17,37 metra. Um persónulegt met var að ræða fyrir Guðna Val. Thelma Lind Kristjánsdóttir, ÍR, var aftur mætt á sama völl og hún hafði sett nýtt Íslandsmet í kringlukasti nokkrum dögum áður. Í dag var markmið hennar að safna sem flestum stigum fyrir sitt félag og færast um leið skrefi nær bikarnum. Henni tókst ætlunarverk sitt því hún tryggði ÍR öll þau stig sem í boði voru með því að sigra kringlukastið. Síðustu tvær greinar fyrir boðhlaup var 1500 metra hlaup karla og kvenna. Sæmundur Ólafsson, ÍR, sigraði hjá körlunum á tímanum 4:12,61 mín og María Birkisdóttir, FH, sigraði hjá konunum á tímanum 5:11,35 mín.

Nú er heldur betur farið að syttast í annan endan á mótinu og enn er allt í járnum. 16 greinum af 18 er lokið og aðeins 1000 metra boðhlaup karla og kvenna eru eftir. Það er aðeins eitt stig sem skilur FH og ÍR að, 101 stig hjá ÍR og 100 stig hjá FH.

ÍR sigrar í boðhlaupunum

Í 1000 metra boðhlaupi karla tekur Dagur Andri Einarsson forystu á fyrsta spretti fyrir FH. Þeirri forystu halda Ari Bragi Kárason og Kormákur Hafliðason á öðrum og þriðja spretti. Fyrir fjórða og síðasta sprett tekur Ívar Kristinn við keflinu fyrir ÍR. Ívar sem nýverið hafði sigrað 400 metra hlaupið gefur allt í botn og saxar á Arnald Þór Guðmundsson sem hleypur fyrir FH. Ívar tekur fram úr honum og sigrar hlaupið fyrir ÍR á tímanum 1:59,68 mínútum.

Hjá konunum skipta ÍR-ingar og FH-ingar samtímis í fyrstu skiptingu. Þá tekur Tiana Ósk við keflinu fyrir ÍR og tekur forystu sem ÍR stelpurnar héldu út hlaupið. Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir kemur svo í mark á tímanum 2:14,54 mínútum.

Lokastaðan í heildarstigakeppninni er sú að ÍR fékk 116 stig og FH 113. Í kvennaflokki sigraði hins vegar FH með sex stigum fleiri en ÍR eða 64 stig. Í karlaflokki sigraði ÍR með níu stigum fleiri en FH eða 58 stig.

Stigahæsti einstaklingurinn í karlaflokki var Ívar Kristinn úr ÍR. Hann keppti í þremur greinum, 100 og 400 metra hlaupi og boðhlaupi. Hann fékk tvö gull og eitt silfur. Það skilaði liðinu 20 stigum af 21 mögulegum.

Stigahæsti einstaklingurinn í kvennaflokki var María Rún úr FH. Hún keppti einnig í þremur greinum en hefði líklegast getað keppt í þeim öllum ef það væri löglegt. Í spjótkasti fékk hún gull og í hástökki og boðhlaupi silfur. Hún safnaði þar með 22 stigum af 24 mögulegum fyrir FH.

Öll úrslit mótsins fá finna hér

Myndir af mótinu frá Gunnlaugi Júlíussyni má sjá hér