Innanhúss tímabil 2023 samantekt

Penni

5

min lestur

Deila

Innanhúss tímabil 2023 samantekt

Frjálsíþróttaárið 2023 byrjar frábærlega og náðist glæsilegur árangur á þessu innanhússtímabili. Það voru sett níu Íslandsmet innanhúss, fimm karlamet og fjögur kvenna met.

„Þvílíkar fyrirmyndir! Hvernig er annað hægt en að heillast af þessu magnaða íþróttafólki sem nú setur Íslandsmet sem aldrei fyrr! Gaman að hugsa til þess að á bakvið hvert afrek er einstök saga, saga um ótrúlegan aga og dugnað íþróttamanns, en líka þrotlaus stuðningur frá sterku baklandi! Íslandsmet er aldrei nein heppni eða tilviljun, heldur glæsileg uppskera. Nú blómstra þau og við getum ekki annað gert en að brosað og samglaðst, en um leið, rétt eins og íþróttafólkið sjálft, leyfum við okkur að hugsa með sjálfum okkur, ætli þau geti bætt metin enn meira? Spennandi tímar í frjálsum!” sagði Freyr Ólafsson formaður, aðspurður um innanhúss tímabilið.

Janúar

Tímabilið hófst á því að Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) bætti 30 ára Íslandsmet Einars Þórs Einarssonar í 60 metra hlaupi karla. Kolbeinn bætti metið á fyrsta móti Nike mótaraðarinnar sem fór fram í Kaplakrika þann 12. janúar. Hann hljóp á tímanum 6,68 sek. en fyrra met Einars var 6,80 sek.

Helgina 14.-15. janúar fór fram Meistaramót Íslands í fjölþrautum innanhúss. Það var Skagfirðingurinn Ísak Óli Traustason (UMSS) sem varð Íslandsmeisrari í sjöþraut karla og það fimmta árið í röð. Ísak hlaut 5074 stig en hann á best 5355 stig frá árinu 2021. Engin kona mætti til leiks í fimmtarþraut á mótinu og var því engin krýnd Íslandsmeistari þetta árið.

Sömu helgi bætti Baldvin Þór Magnússon (UFA) Íslandsmetið í mílu (1609m) innanhúss á Michigan Invitational í Ann Arbor, Michigan. Hann kom í mark á tímanum 3:59,60 mín. Fyrra metið var 4:03,61 mín. sem Hlynur Andrésson (ÍR) setti árið 2020. Baldvin bætti tímann svo enn fremur 4. febrúar á Meyo Invitational í Notre Dame, Indiana. Þar sem brautin var ekki lögleg gat sá árangur ekki talið til Íslandsmets. Hann kom í mark á tímanum 3:57,12 mín. sem er betri árangur en utanhúss met Jón Diðrikssonar í greininni sem var sett árið 1982, 3:57,63 mín.

Þann 25. janúar fór fram Sprint ‘n’ Jump mótið í Árósum í Danmörku þar sem þrír Íslendingar voru á meðal keppenda. Irma Gunnarsdóttir (FH) varð í þriðja sæti í þrístökki kvenna með stökk upp á 12,87 metra. Kolbeinn Höður Gunnarsson varð sjötti í 60 metra hlaupi karla á tímanum 6,73 sek. En það sem stóð upp úr á mótinu var sigur Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur í 60 metra hlaupi kvenna þar sem hún kom í mark á glæsilegu nýju Íslandsmeti, 7,35 sek. Hún átti fyrra metið sjálf, 7,43 sek. sem hún setti fyrir árið síðan.

Við eigum mikið af frábærum ungum og efnilegum íþróttamönnum en í desember bætti hin 12 ára Freyja Nótt Andradóttir (ÍR) aldursflokkamet í 60m hlaupi í U18 ára flokki. Hún kom í mark á tímanum 7,58 sek. og bætti þar með met í U18 ára met Tiönu Óskar Whitworth (ÍR) um eitt sekúndubrot. Hún jafnaði svo þennan árangur á þriðja hluta nike mótaraðarinnar í byrjun mars. Þessi árangur er samkvæmt International Age Records besti árangur heims 12 ára stúlku frá upphafi. Við eigum þar annan fulltrúa en Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á besta árangur heims í 300 metra hlaupi 14 ára stúlkna frá upphafi.

Febrúar

Reykjavíkurleikarnir voru haldnir í byrjun febrúarmánaðar að venju þar sem margt af okkar fremsta frjálsíþróttafólki mætti til leiks ásamt sterkum erlendum keppendum. Það féll eitt Íslandsmet á leikunum en Kolbeinn Höður Gunnarsson bætti þriggja ára Íslandsmet sitt í 200 metra hlaupi innanhúss. Hann sigraði í hlaupinu á tímanum 21,03 og bætti gamla metið sitt um átján sekúndubrot.

Fjórum dögum eftir Reykjavíkurleikana fór fram annar hluti Nike mótaraðarinnar þar sem Irma Gunnarsdóttir bætti eigið Íslandsmet í þrístökki kvenna. Irma stökk 13,36 metra en fyrra metið hennar var 13,13 metrar sem hún setti í desember. Íslandsmetið utanhúss er 13,18m og er í eigu Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur.

Þann 12. febrúar fór fram Norðurlandameistaramótið innanhúss í Uppsala í svíþjóð og áttum við þar níu keppendur. Irma Gunnarsdóttir varð í þriðja sæti í langstökki með stökk upp á 6,34 metra. Hægt er að lesa um gengi íslenska liðsins hér.

Tvö Íslandsmet féllu á Meistaramótshelginni í þetta sinni, eitt á mótinu sjálfu og eitt í Bandaríkjunum. Á Meistaramóti Íslands stórbætti Daníel Ingi Egilsson (FH) tólf ára gamalt Íslandsmet í þrístökki karla. Hann stökk lengst 15,49 metra og bætti þar með Íslandsmet Krist­ins Torfa­son­ar frá ár­inu 2011. Matið var áður 15,27 metr­ar. Erna Sóley Gunnarsdóttir varð svæðismeistari á nýju Íslandsmeti í kúluvarpi kvenna innanhúss. Erna átti glæsilega seríu og voru öll köstin yfir sautján og hálfan meter. Lengsta kastið kom í þriðju umferð og mældist það 17,92 metrar. Hún bætti því eigið Íslandsmet um 22 sentímetra og var þetta í þriðja skiptið sem hún bætir Íslandsmetið innanhúss í ár.

Það voru sett þrjú mótsmet á mótinu og var það lið FH sem urðu Íslandsmeistarar félagsliða en þau sigruðu bæði karla og kvenna flokkinn. Það var Daníel Ingi Egilsson sem setti mótsmet í þrístökki, Irma Gunnarsdóttir setti einnig mótsmet í þrístökki með stökki upp á 13,34 metra og Kolbeinn Höður Gunnarsson í 60m hlaupi á tímanum 6,80 sek.

Baldvin Þór Magnússon (UFA) átti enn og aftur frábært svæðismeistaramót og varð svæðismeistari MAC (Mid-American Conference) í 5000 metra hlaupi innanhúss og bætti um leið tveggja mánaða Íslandsmet sitt í greininni. Hann kom í mark á tímanum 13:58,24 mín. en fyrra metið var 14:01,29 mín. Baldvin varð svo einnig svæðismeistari í bæði mílu hlaupi á tímanum 4:15,29 mín. og í 3000m hlaupi á tímanum 8:02,59 mín.

Norðurlandameistaramót í eldri aldursflokkum var haldið í Laugardalshöll dagana 24.-26. febrúar og voru um 250 keppendur skráðir til leiks. Mótið var bæði Norðurlandameistaramót, þar sem keppendur frá Finnlandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Íslandi keppa um Norðurlandatitil í sínum aldursflokki. Mótið var einnig opið mót fyrir aðrar þjóðir utan Norðurlandanna. Það voru 57 Íslendingar skráðir til leiks og fengu Íslendingar 51 gullverðlaun á mótinu og en það voru Finnar sem unnu til flestra gullverðlauna eða 81 talsins.

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) stórbætti sinn persónulega besta árangur í lóðkasti kvenna og náði einnig besta árangri Íslendings frá upphafi í greininni. Guðrún kastaði lengst 20,03 metra sem dugði til sigurs og fyrsta svæðismeistaratitils. Guðrún bætti einnig eigið skólamet í greininni. Guðrún keppir á Atlantic 10 svæðismeistaramótinu með skólanum sínum Virgina Commonwealth University og fór mótið fram í Kingston, Rhode Island.

Mars

Við áttum tvo fulltrúa á EM innanhúss sem fór fram í Istanbul dagana 2.-5. mars. Kol­beinn Höður Gunn­ars­son var hársbreidd frá því að kom­ast í undanúr­slit­in í 60 metra hlaupi. Kol­beinn hljóp á 6,73 sek­únd­um og varð fimmti í sínum riðli og voru fjórir úr hverjum riðli sem komust áfram í undanúrslitin. Kolbeinn hefði þurft að hlaupa einum hundraðasta úr sekúndu hraðar til þess að komast áfram og endaði hann í 26. sæti. Hann var aðeins fimm hundruðustu úr sekúndu frá Íslandsmetinu sínu en er það 6,68 sek­únd­ur. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hljóp í undanrásum í 60m hlaupi varð hún 34. á tímanum 7,56 sek.

Erna Sóley Gunnarsdóttir keppti á bandaríska háskólameistaramótinu innanhúss sem fór fram í Albuquerque í New Mexico. Erna kastaði lengst 17,59 metra sem er þriðja lengsta kastið hennar á ferlinum. Erna var í áttunda sæti með 17,49 metra eftir þrjú köst og komst því í níu kvenna úrslit og fékk þrjú köst til viðbótar. Erna lengdi sig um tíu sentímetra í fjórðu umferð og hafnaði í sjöunda sæti. Með því að vera í topp átta á bandarísku háskólameistaramóti fær maður viðurkenninguna All American og er þetta í fyrsta skiptið sem Erna hlýtur slíka viðurkenningu. Glæsilegur endir á frábæru innanhúss tímabili.

Það voru FH-ingar sem urðu bikarmeistarar innanhúss á 17. Bikarkeppni FRÍ í boði Lindex í Kaplakrika. Liðið hlaut 104,5 stig og sigurðu þau í bæði karla- og kvennakeppninni. Tvö mótsmet voru sett á mótinu. Irma Gunnarsdóttir setti mótsmet í þrístökki kvenna er hún varð bikarmeistari með stökki upp á 13,16 metra. Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) setti mótsmet í 60 metra metra hlaupi. Hann kom í mark á tímanum 8,81 sek.

Innanhúss tímabilinu lauk með enn einu Íslandsmeti en það var Andrea Kolbeinsdóttir sem stórbætti á 29 ára gamalt Íslandsmet í 5000m hlaupi innanhúss á Góumóti Gaflarans í Kaplakrika. Andrea kom í mark á tímanum 16:46,18 mín. en fyrra metið var 17,25,35 mín. sem Fríða Rún Þórðardóttir setti árið 1994. 

Framundan

Nú tekur við utanhúss tímabilið hjá íþróttamönnunum okkar í Bandaríkjunum. Alls eru þrettán Íslendingar í skóla í Bandaríkjunum og hægt er að lesa meira um íþróttamennina hér.

Penni

5

min lestur

Deila

Innanhúss tímabil 2023 samantekt

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit