Í góðu formi fyrir tímabilið

Þórdís Eva Steinsdóttir keppir fyrir FH í 400 metra hlaupi og er hún ríkjandi Bikar- og Íslandsmeistari í greininni bæði innanhúss og utanhúss. Þórdís hefur sett mörg aldursflokkamet í hlaupum, stökkum og þraut. Það fyrsta setti hún árið 2010 og standa mörg þeirra ennþá í dag. Þórdís hefur keppt á nokkrum stórmótum unglinga og besti árangur hennar var þegar hún komst í úrslit á EM U18 árið 2016.

Keppti í öllum greinum

„Ég man ekki alveg hvenær ég byrjaði að æfa frjálsar en ég held að það hafi verið eftir sumarnámskeið hjá FH. Ég fór þá að æfa og var ekki bara á leikjanámskeiðum. Þá var ég á aldrinum sex til sjö ára“ segir Þórdís Eva.


Hún man ekki eftir því að hafa planað það sérstaklega að einbeita sér að 400 metra hlaupi heldur hafi það gerst að einhverju leiti óvart. Það var í kringum árið 2015. 

Þegar Þórdís var yngri keppti hún í öllum greinum og náði í þeim góðum árangri. Það sést vel ef afrekaskráin er skoðuð því þar eru fjölmörg aldursflokkamet skráð á hana. Það fyrsta í 5000 metra hlaupi árið 2010 þegar  Þórdís var tíu ára. Það var í flokki stúlkna 12 ára og stendur það met enn. Hún hljóp mikið af lengri vegalengdum ásamt 600 og 800 metrum. „Ég færði mig svo frá lengri vegalengdunum því mér fannst styttri skemmtilegri“ segir Þórdís. 

Í góðu formi fyrir tímabilið

Fyrir utan frjálsíþróttir þá stundar Þórdís Eva nám í lögfræði við Háskóla Reykjavíkur þar sem hún hefur lokið einu ári. Á sunnudögum vinnur hún á Lemon en í sumar vinnur hún á leikskóla. „Ég stefni síðan á að vera í tveimur námum í haust þannig það verður nóg að gera. Svo eyði ég líka miklum tíma með vinum mínum,“ segir Þórdís Eva.


Þórdís segir að henni hafi gengið vel að æfa að undanförnu en fannst samt sem áður erfitt að æfa á meðan samkomubanninu stóð. Þá voru breyttar aðstæður og allt öðruvísi en núna gengur hins vegar allt vel. „Ég hef ekki keppt mikið nú í sumar bara vegna aðstæðna en ég tók eitt 300 metra hlaup á Selfossi um daginn og gekk það bara betur en ég þorði að vona sem segir mér bara að ég sé í betra formi en ég hélt,“ segir Þórdís Eva um keppnistímabilið nú í sumar. Hún keppti svo aftur núna um helgina í 200 metra hlaupi þar sem hún hljóp sitt hraðasta hlaup frá upphafi. Hlaupið var hins vegar ekki löglegt vegna of mikils meðvinds en gefur samt sem áður góð fyrirheit fyrir sumarið. 

Í úrslitum á EM unglinga

Stærsta stundin á ferlinum segir Þórdís að hafi verið þegar hún komst í úrslit á EM unglinga. Það var í 400 metra hlaupi út í Georgíu á EM 16-17 ára. 

Um rútínu fyrir keppni segir Þórdís að hún sé ekki með neina rútínu vikuna fyrir nema kvöldið áður reynir hún að borða eitthvað létt í magann. „Svo á keppnisdegi þá vakna ég bara og fæ mér að borða. Fæ mér oftast bara morgunmat og bíð svo þar til ég fer að keppa og hita upp og hleyp. Ekki flókið!“

Aðspurð um góð ráð til yngri iðkenda segir hún að tala ekki sjálfan sig niður og svo sé gott að hafa trú á sjálfum sér.