FH Bikarmeistari

14. Bikarkeppni FRÍ innanhúss fór fram í Laugardalshöllinni í dag þar sem FH varð þrefaldur Bikarmeistari. FH fékk 107 stig, átta gull, fjögur silfur og tvö brons. FH sigraði svo bæði karla- og kvennakeppnina með 49 stig og 58 stig. Í öðru sæti í heildarstigakeppninni varð ÍR með 107 stig og Breiðablik í þriðja með 79 stig.

Fjórfalt 60 metra hlaup

Fyrstu fjórum greinunum til þess að ljúka var 60 metra hlaup og 60 metra grindarhlaup í karla- og kvennaflokki. Þar byrjuðu FH-ingar með látum og settu tóninn fyrir restina af mótinu með þremur gullum. Í grindarhlaupinu sigraði María Rún Gunnlaugsdóttir, FH á 8,85 sekúndum. Rétt á eftir henni á nýju persónulegu meti var Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðabliki á 8,88 sekúndum. Í karlaflokki sigraði Árni Björn Höskuldsson, FH á 8,57 sekúndum sem er nýtt persónulegt met.

Í 60 metra hlaupi karla sigraði fljótasti maður Íslands um þessar mundir, Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH. Hann kom í mark á 6,93 sekúndum sem er 2/100 frá hans besta tíma. Kolbeinn á besta tíma Íslendings í greininni í ár og einnig er hann nýbúinn að slá Íslandsmet sitt í 200 metra hlaupi. Kolbeinn keppir fyrir Memphis háskóla í Bandaríkjunum og kom sérstaklega til Íslands fyrir þetta mót. Í kvennaflokki sigraði Andrea Torfadótttir úr ÍR á 7,65 sekúndum sem er bæting um 3/100 hjá henni.

Eftir fyrstu fjórar greinarnar leiddi FH stigakeppnina með 29 stig, ÍR var í öðru sæti með 25 stig og Breiðablik í þriðja sæti 20 stig.

Mótið hálfnað og staðan jöfn

Þegar átta greinum af sextán var lokið og mótið því hálfnað var FH og ÍR jöfn að stigum með 53 stig hvort. Breiðablik var í þriðja sæti með 34 stig.

Í hástökki sigraði Ægir Örn Kristjánsson, Breiðabliki með því að stökkva yfir 1,96 metra sem persónulegt met og í kúluvarpinu sigraði Britnay Emilie Folrrianne Cots úr FH með 13,41 metra kasti. Í 1500 metra hlaupinu sigraði ÍR tvöfalt. Hjá konunum sigraði Aníta Hinriksdóttir á 4:48,22 mínútum og Sæmundur Ólafsson í karlaflokki á 4:11,92 mínútum.

Enn jafnt eftir tíu greinar

Í 400 metra hlaupinu sigraði nýkryndi Íslandsmeistarinn í greininni Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH. Hún kom í mark á 56,49 sekúndum.  Önnur varð Ingibjörg Sigurðardóttir, ÍR og þriðja Sara Hlín Jóhannasdóttir, Breiðabliki, báðar á nýju persónulegu meti. Í stangarstökkinu átti Karen Sif Ársælsdóttir úr Breiðabliki frábært mót og bætti sig um 23 cm og sigraði. Hún stökk 3,53 metra sem var 10 cm hærra en Stella Dögg Eiríksdóttir Blöndal, ÍR, sem varð önnur. Eftir tíu greinar var bæði FH og ÍR með 67 stig.

FH tekur forystuna fyrir boðhlaupið

Í 400 metra hlaupi karla sigraði FH-ingurinn Kormákur Ari Hafliðason á 48,69 sekúndum og í þrístökkinu sigraði liðsfélagi hans úr FH, Kristinn Torfason, með 14,09 metra stökki. Aðeins tveimur sentimetrum styttra stökk Bjarki Rúnar Kristinsson, Breiðabliki og varð hann annar.

Í langstökki kvenna sigraði Birna Kristín Kristjánsdóttir, Breiðabliki með 5,71 metra stökk. Önnur varð María Rún Gunnlaugsdóttir, FH með 5,52 metra og þriðja Elma Sól Halldórsdóttir, ÍR 5,13 metra. Í kúlvarpi sigraði Guðni Valur Guðnason með miklum yfirburðum þegar hann kastaði 18,22 metra.

Fyrir boðhlaupið leiddi FH stigakeppnina meeð 93 stig á móti 88 stigum ÍR. Því var FH í góðri stöðu fyrir boðhlaupið og þurftu einungis að hlaupa öruggt hlaup til þess að landa Bikarmeistaratitlinum.

FH og ÍR með sitthvort gullið í boðhlaupinu

Síðustu greinar dagsins voru 4×200 metra boðhlaup þar sem ÍR og FH skiptu með sér sigrinum. Í kvennahlaupinu sigraði sveit ÍR á 1:40,96 mínútum, sveitina skipuðu Ásta Margrét Einarsdóttir, Agnes Kristjánsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Andrea Torfadóttir. Hjá körlunum sigraði FH á 1:29,22 mínútum, í sveitinni voru Daði Lár Jónsson, Kormákur Ari Hafliðason, Bjarni Páll Pálsson og Kolbeinn Höður Gunnarsson.

Hér má sjá myndir frá móinu af Flickr síðu Frjálsíþróttasambandsins og hér má sjá myndir sem Gunnlaugur Auðunn Júlíusson tók.

Hér má sjá heildar úrslit mótsins.