HSK/Selfoss stigameistari á MÍ 11-14 ára

Meistaramót Íslands 11-14 ára fór fram um helgina í Laugardalnum. Um 220 krakkar frá 17 félögum tóku þátt á mótinu. Þetta unga íþróttafólk eru stjörnur framtíðarinnar og á mikilli uppleið. Því var mikið um persónulegar bætingar, fimm mótsmet féllu og eitt aldursflokkamet.

HSK/Selfoss sendi fjölmennt og sterkt lið á mótið og sigraði í heildarstigakeppninni með 837 stig. FH varð í öðru sæti með 483,5 stig og Ármann með 407,5 stig. Flest gullverðlaun hlaut Ármann eða fjórtán talsins. HSK/Selfoss hlaut þrettán gull og FH níu.

Stephanie Ósk Ingvarsdóttir úr Kötlu jafnaði aldursflokkametið í hástökki stúlkna 12 ára þegar hún stökk yfir 1,56 metra. Alexander Ingi Arnarsson, Ármanni setti nýtt mótsmet í 600 metra hlaupi í flokki pilta 11 ára þegar hann kom í mark á tímanum 1:54,59 mínútum.

Thomas Ari Arnarson, Ármanni setti mótsmet í langstökki pilta 12 ára. Hann stökk 5,03 metra. Ísold Sævarsdóttir, FH setti mótsmet í 600 metra hlaupi stúlkna 12 ára. Tími hennar í hlaupinu var 1:48,01 mínúta. 4x100m boðhlaupssveit FH í flokki pilta 12 ára setti mótsmet með tímanum 59,91 sekúndum.

Öll úrslit mótsins má finna hér. Myndir frá mótinu má finna á Flickr síðu FRÍ.