HSK/Selfoss stigameistari á MÍ 11-14 ára

Meistaramót Íslands 11-14 ára fór fram á Sauðárkróksvelli um helgina. Um það bil 230 krakkar frá sautján félögum kepptu á mótinu. Þrjú mótsmet féllu og mikið var um bætingar hjá þessu unga og efnilega íþróttafólki.

HSK/Selfoss sendi sterkt og fjölmennt lið á mótið og sigraði í heildarstigakeppninni með 943 stig. FH varð í öðru sæti með 680 stig og UFA í því þriðja með 268 stig.

Þrjú mótsmet um helgina

Hér má lesa um það þegar Patrekur Ómar Haraldsson setti mótsmet í 600 metra hlaupi 11 ára pilta. En auk þess setti Ísold Sævarsdóttir, FH, mótsmet í sömu grein í flokki 13 ára stúlkna og Björg Gunnlaugsdóttir, ÚÍA, mótsmet í flokki 14 ára stúlkna. Öll þrjú mótsmetin voru því sett í 600 metra hlaupi.

Fimm gull og eitt mótsmet

Ísold Sævarsdóttir er ung og efnileg frjálsíþróttastelpa úr FH. Hún átti frábæra helgi þar sem hún vann til fimm gullverðlaun, fékk eitt brons og setti mótsmet í 600 metra hlaupi. Gullin fékk hún í 100 og 600 metra hlaupi, langstökki, kúluvarpi og 4×100 metra boðhlaupi. Í 80 metra grindarhlaupi fékk hún svo brons. Hér fyrir neðan má sjá viðtal við vinkonurnar úr FH, Ísoldi Sævarsdóttur og Birnu Björnsdóttur sem unnu saman til gullverðlauna í boðhlaupinu.

Þrjú gull til Heklu

Hekla Magnúsdóttir úr Ármanni keppir í flokki 14 ára stúlkna. Um helgina sigraði hún í 80 metra grindarhlaupi, hástökki og langstökki. Í grindarhlaupinu hljóp hún á 13,14 sekúndum sem er persónulegt met hjá henni. Silfurverðlaun fékk Hekla í 100 metra hlaupi og í kúluvarpi þar sem hún kastaði 10,37 metra sem er hennar lengsta kast.

Daníel Breki með tvö gull og tvö silfur

Daníel Breki Elvarsson keppir fyrir HSK/Selfoss í flokki 14 ára pilta. Hann vann til tveggja gullverðlauna og tveggja silfurverðlauna og bætti sig bæði í kúluvarpi og hástökki. Í spjótkastinu kastaði hann 41,98 metra og var hann sá eini sem kastaði yfir 40 metra. Hann var svo í sigursveit HSK/Selfoss í 4×100 metra boðhlaupi. Í hástökki fékk hann silfur og bætti hann sinn besta árangur í erfiðum aðstæðum þar sem vindur var mikill. Í langstökki fékk hann einnig silfur.

Mikið var um bætingar um helgina og margir sem unnu til verðlaun í nokkrum greinum. Á þessu móti hefur flest okkar fremsta frjálsíþróttafólk hafið ferilinn sinn og nokkrir keppt á Ólympíuleikunum aðeins nokkrum árum síðar. Því er líklegt að mikið af stjörnum framtíðarinnar hafi verið að keppa á Sauðárkróki núna um helgina.

Hér má sjá öll úrslit mótsins og hér má sjá myndir frá mótinu.