HSK/Selfoss leiðir stigakeppnina

Fyrri dagur á Meistaramóti Íslands 11-14 ára fór fram í gær á Sauðárkróksvelli. Eftir þennan fyrri dag þá leiðir lið HSK/Selfoss sameiginlegu stigakeppnina með 492,5 stig. Í öðru sæti er FH með 387 stig og í þriðja sæti er UFA með 157 stig. Í fjölda gullverðlauna þá eru þessi þrjú félög öll með sex gull en HSK/Selfoss hefur unnið sér inn 22 verðlaun, FH nítján og UFA níu.

Hér að neðan má sjá Guðmund Karlsson, framkvæmdarstjóra FRÍ, tala um mótið og upphafið á sínum keppnisferli.

Mótsmet í 600m hlaupi 11 ára pilta

Eitt mótsmet var sett á þessum fyrri keppnisdegi og var það Blikinn Patrekur Ómar Haraldsson sem setti það í 600 metra hlaupi 11 ára pilta. Patrekur átti í mikilli baráttu við Braga Hólmar Guðmundsson sem keppir fyrir Kormák, en Patrekur hafði betur á endasprettinum. Patrekur Ómar kom í mark á 1:51,33 mínútu en Bragi Hólmar á 1:53,90 mínútum.

Patrekur Ómar og Bragi Hólmar

Fleiri krakkar í öðrum flokkum hlupu undir gildandi mótsmeti en í of miklum mótvind. Einnig var töluvert um persónuleg met eins og algengt er í þessum aldursflokkum.

Fjögur gull

Í einstaklingskeppninni er það ein stúlka í flokki 13 ára sem hefur skarað fram úr. Það er FH-ingurinn Ísold Sævarsdóttir sem keppt hefur í fjórum greinum og sigrað í þeim öllum. Á þessum fyrri keppnisdegi keppti hún í 100 og 600 metra hlaupi, langstökki og kúluvarpi og fékk fyrir það fjögur gullverðlaun. Í langstökki stökk hún 5,56 metra og til þess að setja það í samhengi hefði það dugað henni á pall á Meistaramóti Íslands fullorðinna síðasta sumar.

Hér má sjá heildarstigastöðuna og öll úrslitin á fyrri keppnisdegi