Hörkukeppni á Meistaramóti Íslands

Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum fór fram um helgina í Kaplakrika. Á fyrri keppnisdegi fóru fram ellefu greinar og á þeim síðari fóru fram 13 einstaklingsgreinar auk 4×400 metra boðhlaups í karla og kvennaflokki. Í heildarstigakeppninni var hnífjafnt milli ÍR og FH fyrir síðustu grein og ljóst var að boðhlaupið myndi skera úr um sigurvegara.

Allt undir í boðhlaupinu

Sveit ÍR í 4×400 metra boðhlaupi

Sveit ÍR, sem skipað var Agnesi Kristjánsdóttur, Dagbjörtu Lilju Magnúsdóttur, Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur og Ingibjörgu Sigurðardóttur sigraði 4×400 metra boðhlaup kvenna á tímanum 3:54,02 mínútum. Sveit FH sem skipað var Maríu Rún Gunnlaugsdóttur, Melkorku Rán Hafliðadóttur, Sólrúnu Soffíu Arnardóttir og Þórdísi Evu Steinsdóttur varð önnur á 3:55,12 mínútum. ÍR sigraði því kvennakeppnina með 29 stig og fimm sigra gegn 28 stigum og sex sigrum hjá FH.

Sveit FH í 4×400 metra boðhlaupi

Í 4×400 metra boðhlaupi karla sigraði sveit FH á 3:26,74 mínútum. Sveitina skipuðu Bjarni Páll Pálsson, Hinrik Snær Steinsson, Valur Elli Valsson og Kormákur Ari Hafliðason. Sveit Breiðabliks varð önnur á 3:30,69 mínútum. FH sigraði karlakeppnina með 22 stig og fimm sigra, ÍR varð í öðru sæti með 19 stig og fjóra sigra. Heildarstigakeppnina sigraði því FH með 50 stig og ellefu sigra, ÍR varð rétt á eftir með 48 stig og níu sigra.

Sneru taflinu við í 200 metra hlaupi

Guðbjörg Jóna, Þórdís Eva og Katla Rut

Í 400 metra hlaupi á fyrri keppnisdegi var hnífjafnt milli Þórdísar Evu Steinsdóttur, FH og Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur, ÍR, þar sem Þórdís Eva hafði betur. Þær tvær mættust aftur í úrslitariðlinum í 200 metra hlaupi í dag þar sem Guðbjörg Jóna kom tvíefld til leiks og kom fyrst í mark. Tími Guðbjargar var 24,31 sekúnda og Þórdís Eva var á 24,74 sekúndum.

Það sama var upp á teningnum í karlaflokki þar sem mikil barátta var á milli æfingafélaganna úr FH, Hinriks Snæs Steinsonar og Kormáks Ara Hafliðasonar. Hinrik sigraði í 400 metra hlaupi í gær en í dag snérist taflið við og Kormákur bar sigur úr býtum. Tími Kormáks var 22,21 sekúnda sem er persónuleg bæting hjá honum og Hinrik varð annar á 22,30 sekúndum.

Þrjú gull og tvö silfur hjá Maríu Rún

María Rún

Ein fremsta frjálsíþróttakona landsins, María Rún Gunnlaugsdóttur úr FH, sýndi styrk sinn um helgina og fékk þrjú gull og tvö silfur. Á fyrri keppnisdegi sigraði hún hástökkið og á þeim síðari var á dagskrá hjá henni 60 metra grindarhlaup, kúluvarp og langstökk auk 4×400 metra boðhlaups. María Rún sigraði og bætti sinn persónulega árangur bæði í kúluvarpi og 60m grind. Í kúluvarpi kastaði hún 12,75 metra og í 60 metra grindarhlaupi hljóp hún á 8,71 sekúndu. Í langstökki þurfti engan annan en EM farann Hafdísi Sigurðardóttur til að sigra Maríu. Hafdís stökk lengst 6,18 metra og María varð önnur með 5,79 metra.

ÍR-ingar sigursælir í lengri hlaupunum

Sæmundur Ólafsson

ÍR-ingar eiga mikið af góðum langhlaupurum og báru þeir sigur úr býtum í 800 metra hlaupi karla og kvenna og 3000 metra hlaupi karla og kvenna. Ingibjörg Sigurðardóttir sigraði 800 metra hlaupið á tímanum 2:17,40 mínútum sem er persónulegt met hjá henni. Í karlaflokki sigraði Sæmundur Ólafsson á 1:53,49 mínútum. Í 3000 metra hlaupi kvenna sigraði Elín Edda Sigurðardóttir á 10:12,98 mínútum sem er persónuleg bæting. Í 3000 metra hlaupi karla tóku sex keppendur þátt sem allir voru frá ÍR. Þar sigraði Þórólfur Ingi Þórsson með persónulega bætingu á 9:09,89 mínútum.

Ísak Óli með tvöfaldan sigur

Ísak Óli Traustason

Fjölþrautakappinn Ísak Óli Traustason, UMSS hafði nóg að gera um helgina þar sem hann keppti í fimm greinum. Á fyrri keppnisdegi keppti hann í þremur og á þeim síðari keppti hann í tveimur og sigraði þær báðar. Langstökkið sigraði hann með stökk upp á 6,80 metra, Gunnar Eyjólfsson UFA varð annar með 6,68 metra og Hermann Orri Svavarsson, Fjölni varð annar með 6,57 metra stökk. Í 60 metra grindarhlaupi sigraði hann örugglega á tímanum 8,27 sekúndum. Annar varð Sindri Magnússon, Breiðabliki á 8,70 sekúndum.

Kristján Viggó

Ármenningurinn ungi Kristján Viggó Sigfinnsson sigraði í hástökki með 1,97 metra stökk og í öðru sæti varð Bjarki Rúnar Kristinsson, Breiðabliki með 1,91 metra. Í þriðja sæti varð Kolbeinn Tómas Jónsson, ÍR sem stökk einnig 1,91 metra en var með fleiri tilraunir.

Í stangastökki kvenna sigraði Bogey Ragnheiður Leósdóttir, FH, með 3,40 metra stökk. Stella Dögg Eiríksdóttir Blöndal, ÍR stökk einnig 3,40 metra en varð önnur þar sem hún hafði fellt 3,40 einu sinni. Í þriðja sæti varð Rakel Ósk Dýrfjörð Björnsdóttir, KFA sem stökk 3,20 metra.

Öll úrslit helgarinnar má sjá hér.