Hörð barátta á 75. Vormóti ÍR

75. Vormóti ÍR fór fram í gærkvöldi í blíðskaparveðri. Mótið er það síðasta sem tekið er til­lit til við val á landsliði Íslands sem tek­ur þátt í Evr­ópu­keppni landsliða sem fer fram í lok næstu viku. Því var mikið í húfi fyrir marga keppendur og hart barist.

Ólymp­íufar­inn og gull­verðlauna­hafi frá Smáþjóðal­eik­un­um, Guðni Val­ur Guðna­son ÍR, sýndi yfirburði sína í kringlukasti karla með því að kasta 58,81 m. Í stangarstökki kvenna sigraði Hilda Steinunn Egilsdóttir FH með stökki uppá 3,50 m. Í hástökki kvenna sigraði Kristín Lív Svabo Jónsdóttir ÍR og var hún að bæta sinn besta árangur með 1,70 m stökki. María Rún Gunnlaugsdóttir FH, silfurverðlaunahafi frá Smáþjóðaleikunum, var í 2. sæti með 1,67 m.

Þor­steinn Ingvars­son ÍR og Krist­inn Torfa­son FH, sem unnu gull og silf­ur á Smáþjóðal­eik­un­um börðust um sæti í landsliðinu í langstökki karla. Fór svo að Kristinn bar sigur úr býtum með 7,61 m stökki og náði um leið sínum ársbesta árangri.

Í 100 m hlaupi kvenna kepptu 22 spretthlauparar. Hin 16 ára gamla Tiana Ósk Whitworth ÍR sigraði í hlaupinu á tímanum 12,08 sekúndum, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR var önnur á tímanum 12,24 sek og Birna Kristín Kristjánsdóttir Breiðabliki þriðja á 12,63 sek. Vindur mældist -0,1 m/s.

Í sleggjukasti karla bar Vilhjálmur Árni Garðarson FH sigur úr býtum með 51,83 m kasti.

Í 100 m hlaupi karla var samkeppnin gríðarlega mikil. Þar voru þrír úr 4×100 m boðhlaupssveitinni sem sigraði og setti Íslandsmet á Smáþjóðaleikunum, þeir Ari Bragi Kárason FH, Kolbeinn Höður Gunnarsson FH og Ívar Kristinn Jasonarson ÍR, mættir til leiks. Fór svo að Ari Bragi sigraði hlaupið á tímanum 10,77 sek, Kolbeinn Höður var annar á 10,83 sek og Björgvin Brynjarsson Breiðabliki þriðji á 10,95 sek. Vindur mældist +0,4 m/s.

Í kúluvarpi karla sigraði Óðinn Björn Þorsteinsson ÍR með 16,48 m kasti. Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason ÍR hafnaði í öðru sæti með 16,48 m kasti.

Í 400 m hlaupi karla bar FH-ingurinn Hinrik Snær Steinsson FH sigur úr býtum á tímanum 50,14 sek og bætti um leið sinn persónulega árangur. Í 800 m hlaupi kvenna sigraði hin 15 ára gamla, Iðunn Björg Arnaldsdóttir ÍR, á tímanum 2:22,94 og var um leið að bæta sinn persónulega árangur.

Í kringlukasti kvenna sigraði Thelma Lind Kristjánsdóttir ÍR með 46,67 m kasti.

Í þrístökki kvenna börðust 11 keppendur um landsliðssæti. Fór svo að hin 15 ára gamla, Helga Margrét Haralsdóttir ÍR, sigraði með 11,42 m stökki.

Í 800 m hlaupi karla var mikil barátta milli Bjartmars Örnusonar KFA og Trausta Þór Þorsteins Ármanni. Fór svo að Bjartmar sigraði hlaupið á 1:55,08 mín og Trausti var annar á 1:55,21 mín. Var Trausti að bæta sinn perónulega árangur töluvert eða um 76/100 úr sekúndu.

Í 200 m hlaupi kvenna sigraði landsliðskonan Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir ÍR á tímanum 24,96 sek og í 200 m hlaupi karla sigraði Ari Bragi Kárason FH á tímanum 21,99 sek.

Í hástökki karla sigraði Markús Ingi Hauksson ÍR með stökk upp á 1,90 m og bætti um leið sinn persónulega árangur. Annar var Bjarki Rúnar Kristinsson Breiðabliki en hann stökk einnig yfir 1,90 m.

Arn­ar Pét­urs­son ÍR sigraði í Kal­dals­hlaup­inu þar sem vega­lengd­in er 3.000 metr­ar. Hljóp hann á tím­an­um 8:56,23 mín­út­um.

Andrea Kol­beins­dótt­ir ÍR sigraði í 3.000 metra hindrun­ar­hlaupi kvenna á 11:21,70 mín­út­um.