Hlynur Ólason bætti 15 ára gamalt piltamet

Á föstudaginn fór fram Áramót Fjölnis í Laugardalshöllinni. Þar setti Hlynur Ólason úr ÍR nýtt piltamet í flokki 16-17 ára í 3000 metra hlaupi. Hlynur hljóp á tímanum 9:10,02 mínútum og bætti metið um rúmar 9 sekúndur. Fyrra metið var í eigu Kára Steins Karlssonar sem setti það í Stokkhólmi árið 2003.

Hlynur Ólason á MÍ 15-22 ára síðastliðið sumar

Hlynur er ungur og efnilegur langhlaupari og keppti hann meðal annars fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu í víðavangshlaupum sem fór fram í haust. Hlynur varð einnig Íslandsmeistari í sínum aldursflokki í 3000 metra hlaupi á Meistaramóti Íslands 15-22 ára síðastliðið sumar. Hlynur er að hefja keppnistímabilið með krafti og verður spennandi að fylgjast með honum í komandi mótum.