Hlynur og Aníta á EM í Belgrad 2017

Stjórn FRÍ hefur samþykkt val ÍÞA á keppendum Íslands á EM í frjálsíþróttum sem fram fer í Belgrad 3.-5. mars næstkomandi.

Fulltrúar Íslands verða þau Aníta Hinriksdóttir í 800m hlaupi og Hlynur Andrésson í 3000m hlaupi.

Tveir keppendur höfðu náð lágmarki á leikana, þær Aníta Hinriksdóttir og Arna Stefanía Guðmundsdóttir. Því miður getur Arna Stefanía ekki þegið boð um keppni, vegna meiðsla. Hún teflir ekki á tvær hættur núna, heldur horfir bjartsýn fram til sumarsins og keppni í sinni aðal grein 400m grindahlaupi.

Stjórn FRÍ hefur ákveðið að nýta sér boð um að senda karl einnig til keppni án lágmarka. Sá sem er næstur lágmarki og raunar svo aðeins munar einu prósenti, er Hlynur Andrésson 3000m hlaupari frá Vestmannaeyjum. Hlynur æfir nú og keppir með liði Easter Michigan háskóla í Bandaríkjunum (sjá hér). Hann hefur á undanförnum vikum náð góðum árangri í millivegalengdarhlaupum og þar á meðal sett tvö Íslandsmet innanhúss, eitt í 3000m hlaupi og annað í míluhlaupi.

Mynd að ofan af Hlyni í skólabúningi sínum.