Hlynur með nýtt Íslandsmet og EM lágmark

Hlynur Andrésson keppti í dag í 3000 metra hlaupi í Bergen í Noregi. Hann hljóp á 7:59,11 mínútum sem er bæði nýtt Íslandsmet og lágmark á EM sem fram fer í Glasgow 1.-3. mars.

Hlynur hefur verið að reyna við lágmarkið síðustu vikur og hljóp út í Belgíu þar síðustu helgi á 8:08,24 mínútum sem var þá nýtt Íslandsmet. Lágmarkið á EM er 8:05,00 mínútur og fresturinn til þess að ná því rennur út í hádeginu á morgun. Hlynur tryggði sér því farseðilinn til EM á síðustu stundu, bætti eigið Íslandsmet í leiðinni og var fyrstur Íslendinga til þess að hlaupa 3000 metrana undir 8 mínútum.