Fyrr í dag hljóp Hlynur Andrésson 10 km í Parrelloop hlaupinu í Hollandi. Hlynur hljóp á tímanum 29:49 mínútu og varð um leið fyrsti Íslendingurinn til þess að hlaupa 10 km í götuhlaupi undir 30 mínútum. Hlynur kom 27. í mark en Mande Buschendich frá Úganda sigraði hlaupið á 27:56 mínútum.
Fyrra metið í 10 km götuhlaupi átti Jón Diðriksson sem hann setti í Þýskalandi árið 1983 og var 30:11 mín. Hlynur á einnig Íslandsmetið í 10.000 m hlaupi á hlaupabraut. Það setti hann í Raleigh í Bandaríkjunum í mars í fyrra og er það 29:20,92 mín.
Í myndbandinu hér að neðan má sjá svipmyndir úr hlaupinu þar sem Hlynur kemur stuttlega fyrir.
Þessi frétt er birt með fyrirvara þar sem beðið er formlegrar staðfestingar á nýju Íslandsmeti