Hlaup- og aðrir frjálsíþróttaviðburðir í maí

Íþróttin okkar, frjálsíþróttir, hlaup, stökk, köst og ganga, hefur mikla sérstöðu nú á tímum COVID-19 farsóttarinnar. Hana má stunda einn með sjálfum sér og bæta sig án smithættu. Þó ágætlega hafi gengið hjá okkar fólki á sínum einkaæfingum þá sakna allir félagsskaparins við æfingar og keppni. Nú sér loks til sólar.

Á fundi með Almannavörnum, sóttvarnalækni og fulltrúa Heilbrigðisráðuneytis mánudaginn 4. maí var farið vandlega yfir þær breytingar sem sem rýmkun á samkomubanni hefur í för með sér fyrir okkar starf, en hér fylgjum við auglýsingu nr. 360/2020 á vef Heilbrigðisráðuneytisins og þá sérstaklega 6. grein um skipulagt íþróttastarf sem fylgir í heild sinni neðst í fréttinni.

Hvað þýðir þetta fyrir skipulagðar æfingar og keppni í maí?

  1. Allt starf fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri, yngri en 16 ára, hvort heldur er æfingar eða keppni, getur farið fram án takmarkana.
  2. Skipulagðar æfingar fyrir 16 ára og eldri geta farið fram utandyra, en þó aðeins þannig að ekki séu fleiri en sjö einstaklingar á hverjum 2000m2.
  3. Hlaupaviðburðir geta farið fram en þá aðeins þannig að mest sjö einstaklingar séu á hverju 2000m2 svæði á hverjum tíma í hlaupinu. 
  4. Sérmót, s.s. kast- eða stökkmót, lágmark tvær keppnisgreinar og þrír keppendur í grein geta farið fram en aðeins ef sjö einstaklinga eru á hverju 2000m2 svæði á hverjum tíma.

Við getum nú hvatt til skipulagðra æfinga og keppni, en brýnum fyrir fólki að gæta vel að almennum reglum um hreinlæti. Sérstaklega þarf að huga að sótthreinsun áhalda og að virða 2ja metra regluna hverju sinni, sem gildir fyrir alla sem ekki deila heimili.

Af ofangreindu er ljóst að íþróttakeppni í maí er mjög erfið í framkvæmd og þarfnast skipulags og útsjónarsemi. Við minnum þó á að öll erum við í liði Almannavarna og látum ekki kappið bera skynsemina ofurliði næstu vikurnar. Ef vel gengur munu reglur verða rýmkaðar enn, væntanlega í byrjun júní. Ef að líkum lætur ætti þá allt skipulagt íþróttastarf fullorðinna að geta farið fram án takmarkana annarra en þeirra að viðburðir verði ekki meira en 100 manna. Ákvörðun og auglýsing á þessu liggur þó ekki fyrir enn.

 

Auglýsing nr. 360/2020 – 6. gr. – Skipulagt íþróttastarf.

Æfingar og keppnir skipulagðs íþróttastarfs eru heimilar án áhorfenda með þeim takmörkunum sem greinir í 6. gr.

Í skipulögðu íþróttastarfi skulu snertingar vera óheimilar og halda skal 2 metra bili á milli einstak­linga. Notkun á sameiginlegum búnaði, einkum þeim sem snertur er með höndum, skal haldið í lágmarki og ber að sótthreinsa hann á milli notkunar.

Óheimilt er að nota búningsklefa, sturtuklefa og aðra inniaðstöðu en íþróttasal og salernis­aðstöðu.

Við skipulagt íþróttastarf innandyra mega ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman í einu rými, sem skal vera a.m.k. 800 m².

Við skipulagt íþróttastarf utandyra mega ekki fleiri en sjö einstaklingar æfa eða leika saman í hópi. Séu fleiri hópar við æfingar á sama svæði skal miða við að hver hópur hafi um 2.000 m² til umráða.

Þrátt fyrir ákvæði 3.-5. mgr. eru sundæfingar heimilar fyrir allt að sjö manns í einu, hvort sem er inni eða úti, og notkun búnings- og sturtuaðstöðu eftir því sem þörf krefur.