Hilmar þriðji og Sindri fjórði

Bandaríska Háskólameistaramótið í frjálsíþróttum fer fram þessa vikuna. Mótið fer fram í Austin, Texas og þar keppa einungis þeir allra bestu úr bandarískum háskólum víðsvegar um landið. Á mótinu eiga Íslendingar tvo fulltrúa og kepptu þeir báðir í gær. Hilmar Örn Jónsson keppti í sleggjukasti fyrir University of Virginia og Sindri Hrafn Guðmundsson í spjótkasti fyrir Utah State University.

Hilmar Örn fékk brons þegar hann kastaði 73,31 metra. Sá sem sigraði kastaði 74,63 metra og sá sem tók annað sætið 73,88 metra. Hilmar Örn er á sínu síðasta keppnisári í skólanum en hann mun útskrifast í desember. Frábær árangur að komast á verðlaunapall á sterku móti sem þessu. Hilmar segist vera í frábæru formi enda nýbúinn að bæta sig töluvert og setja nýtt Íslandsmet í greininni. Hann mun koma til Íslands á sunnudaginn en stefnir svo í framhaldinu af því að keppa erlendis á sterkum kastmótum.

Sindri Hrafn endaði í fjórða sæti með 73,92 metra kast. Sigurkastið á mótinu var 86,62 metrar og sá sem hlaut brons kastaði 75,59 metra. Sindri Hrafn á eitt ár eftir í skólanum og getur því byggt ofan á gott mót í ár og stefnt enn hærra á því næsta. Sindri hefur verið að glíma við bakmeiðsli og hefur því ekki getað kastað mikið í vetur og í vor. Sindri á best tæpa 81 meter og var því töluvert frá sínu besta. Hann sagðist klárlega hafa viljað kastað lengra en miðað við meiðsli sé hann sáttur. Enda frábær árangur að vera meðal þeirra bestu í bandarískum háskólum. Sindri kemur til Íslands um miðjan júní þar sem hann mun vinna að því að ná sér góðum af meiðslunum.