Hilmar Örn Jónsson FH var á meðal keppenda á bandaríska háskólameistaramótinu sem fram fer í Eugene í Oregon-ríki Bandaríkjanna. Hilmar kastaði vel, hafnaði í fjórða sæti og tókst að bæta Íslandsmet sitt í sleggjukasti í flokki 20-22 ára.
Hilmar Örn kastaði 72,38 metra í sjöttu og síðustu umferðinni, en hann kastaði yfir 70 metra strax í fyrstu umferð. Í öðru kasti fór sleggjan 71,86 metra, en næstu þrjú köst voru ógild.
Hilmar Örn var skráður inn á mótið með áttunda besta árangurinn á árinu, en hann kastaði 70,60 metra seint í maí og tryggði sér um leið þátttökurétt á háskólameistaramótinu þar sem fremsta frjálsíþróttafólk allra háskóla í Bandaríkjunum kemur saman.