Heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum fer fram í Eugene, Oregon í Bandaríkjunum dagana 15.-24. júlí. Íslendingar eiga einn keppanda á mótinu og er það sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson (FH) sem keppir á sínu öðru heimsmeistaramóti. Hilmar keppti á heimsmeistaramótinu í London árið 2017. Hilmar æfir hjá sænska þjálfaranum Mattias Jons og er búinn að eiga frábært tímabil. Hann er búinn að kasta 75,52 metra lengst í ár sem hann gerði á Hallesche Werfertage í Þýskalandi í Maí. Hann kastaði vel Meistaramóti Íslands, 75,20 metra sem skilaði inn mikilvægum stigum fyrir komandi stórmót. Hilmar á 35. besta árangurinn í heiminum í ár og á mótinu mun hann mæta allra bestu sleggjukastara heims í Eugene.
Sleggjukast karla er á fyrsta keppnisdegi mótsins (15. júlí) og á eftir að koma í ljós í hvorum kasthópnum Hilmar er í. Fyrri kasthópurinn kastar klukkan 16:05 (kasthópur A) og seinni klukkan 17:30 (kasthópur B).
Nánari upplýsingar um mótið má finna hér. Tímaseðil má finna hér.