Hilmar keppti í dag í undankeppni í sleggjukasti karla Á EM í dag og var sjöundi inn í úrslitin. Hann gerði ógilt í fyrsta kasti og fór sleggjan rúmlega 70 metra. Í öðru kastaði hann 72,87 metra. Í þriðja og síðasta kasti kastaði hann 76,33 metra sem var kastið sem skilaði honum inn í úrslitin. Þetta er hans besti árangur í ár og annað lengsta kastið hans á ferlinum. Hann var númer þrjú í sínum kasthópi.
„Ég byrjaði ekki svo vel svo vissi ég hvað ég ætlaði að gera. Þetta var á pari við það sem er að gerast á æfingum þannig ég var bara mjög ánægður,“ sagði Hilmar eftir keppni.
Úrslitin fara fram klukkan 18:10 að íslenskum tíma á morgun, fimmtudag.