Helstu afrek 92. Meistaramóts Íslands

Það fór líklegast ekki fram hjá neinum þegar 92. Meistaramót Íslands fór fram um helgina í nafla alheimsins, Sauðárkróki. Samankomið var allt fremsta frjálsíþróttafólk landsins og tilbúið til að sýna hvað í þeim byggi. Völlurinn sem nýlega hefur fengið uppnefnið skagfirska töfrateppið var í toppstandi og allt til alls fyrir frábært mót. Ingó hefði reyndar mátt vera aðeins rausnarlegri við keppendur og mótsgesti en það ringdi meirihluta mótsins og lofthiti ekki til að hrópa húrra fyrir. Keppendur létu það hins vegar ekki á sig fá og bættu sín persónlegu met, mótsmet, eitt Íslandsmet féll og eitt aldursflokkamet.

Það fór líklegast engin haka í gólf hjá fólki þegar spretthörðustu stelpur landsins, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth, áttu þátt í því að bæta Íslandsmetið í 4×100 metra boðhlaupi. Þær skipuðu sveit ÍR ásamt Hrafnhildi Eir Hermóðsdóttur og Helgu Margréti Haraldsdóttur og hlupu á tímanum 46,29 sekúndum.

Yngsti Íslandsmeistarinn í ár er hann Kristján Viggó Sigfinnsson úr Ármanni. Þó svo Kristján hafi verið sá yngsti til að hljóta Íslandsmeistaratitilinn þá er hann langt því frá að vera sá minnsti. Mjög líklega er hann sá stærsti þó það séu samt ekki staðfestar fréttir. Það kemur sér einkar vel fyrir okkar mann því Kristján keppir í hástökki. Hann stökk hæst allra eða 2,02 metra og setti þar með aldursflokkamet 15 ára pilta.

Elsti Íslandsmeistarinn er hann Jón Bjarni Bragason. Hann er fæddur árið 1971 sem gerir hann 47 ára, sem sagt á besta aldri. Jón Bjarni keppti um síðustu helgi á Norðurlandamóti öldunga þar sem hann sigraði allar sínar greinar. Á MÍ á Sauðárkróki hélt hann sigurgöngu sinni áfram þegar hann sigraði í kringlukasti og kastaði lengst allra eða 43,82 metra.

Stigahæsta konan á mótinu samkvæmt IAAF stigunum var nýbakaða móðirin Hafdís Sigurðardóttir. Hún sigraði langstökkið þegar hún stökk 6,30 metra sem gefa 1052 IAAF stig. Hafdís eignaðist sitt fyrsta barn fyrir ári síðan og er strax aftur komin í fremstu röð í frjálsíþróttaheiminum.

Stigahæsti karlinn á mótinu var hann Sindri Hrafn Guðmundsson. Sindri keppti í spjótkasti og kastaði lengst 77,01 metra og gefur það 1051 IAAF stig. Sindri æfir og stunda nám í Bandaríkjunum en heiðrar okkur með nærveru sinni á Íslandi í sumar.

Myndir voru teknar af Gunnlaugi Júlíussyni.