Helga Margrét Norðurlandameistari á nýju Íslandsmeti, 5721 stig

Nú er lokið keppni í sjöþraut kvenna á NM unglinga á Kópavogsvelli.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir varð Norðurlandameistari í flokki 18-19 ára og bætti íslandsmet sitt um 197 stig, hlaut samtals 5721 stig og varð hvorki meira né minna en 792 stigum á undan næstu stúlku, sem var Sabine Winqvist frá Svíþjóð með 4929 stig. Helga Margrét stökk 5,49m í langstökki í dag, kastaði spjótinu 42,32 metra og hljóp að lokum 800m á 2:18,96 mín. Þessi árangur Helgu Margrétar er aðeins 179 stigum frá lágmarki fyrir HM fullorðina í ár. Þetta er annar besti árangur í heiminum á þessu ári í flokki 19 ára og yngri skv. afrekaskrá IAAF.
Þá er þetta 49 besti árangur í kvennaflokki það sem af er þessu ári í kvennaflokki.
Í þriðja sæti í 18-19 ára aldursflokki varð Katrine Haaklan frá Finnlandi með 4872 stig.
 
Sveinbjörg Zophoníasdóttir fylgdi eftir góðum árangri sínum í gær og tryggði sé bronsverðlaun í flokki 17 ára og yngri og náði um leið lágmarki fyrir HM unglinga 17 ára og yngri í júlí.
Sveinbjörg hlaut samtals 4865 stig, en lágmarkið fyrir HM 17 ára og yngri er 4500 stig. Sveinbjörg stökk 5,48 metra í langstökki, kastaði spjótinu 33,90 metra og hljóp að lokum 800m á 2:41,62 mín.
Norðurlandameistari í þessum aldursflokki varð Mirva Vainionpää frá Finnlandi með samtals 5119 stig og í öðru sæti varð Jessica Bloodworth frá Svíþjóð með 4991 stig.
 
Fjóla Signý Hannesdóttir varð í 4. sæti í elsta aldursflokki kvenna 20-22 ára með samtals 4236 stig. Norðurlandameistari varð Ellinor Rosenquist frá Svíþjóð með 5280 stig og Miia Kurppa frá Finnlandi með 5149 stig.
 
Nú stendur yfir keppni í síðustu grein í tugþraut karla og segjum við fréttir af tugþrautinni þegar úrslit liggja fyrir.
 
Sjá nánar úrslit á www.mot.fri.is (NJCCE U23).
 
Myndin er að Helgu Margréti og Sveinbjörgu eftir að þær luku keppni áðan.

FRÍ Author