Helga Margrét, Einar Daði og Ágústa fara vel af stað í Kladno

Nú er hafin keppni á alþjóðlega fjölþrautarmótinu í Kladno í Tékklandi, þar sem Helga Margét Þorsteinsdóttir og Ágústa Tryggvadóttir keppa í sjöþraut kvenna og Einar Daði Lárusson í tugþraut unglinga 19 ára og yngri.
 
Öll þrjú hafa farið mjög vel af stað. Helga Margrét hljóp 100m grindahlaup á 14,19 sek. og bætti sinn besta árangur um 20/100 úr sek. (Átti best 14,39s og 14,55s best í þraut). Ágústa bætti sig einnig vel og hljóp á 15,21 sek. Þær eru nú að keppa í hástökkinu og eru báðar komnar yfir 1,67m, en hlé var gert á keppninni núna áðan vegna úrhellisrigningar á vellinum í Kladno. Helga Margrét freistar þess að ná lágmarki fyrir Heimsmeistaramótið í Berlín í sjöþraut, en lágmarkið er 5900 stig. Íslandsmet Helgu er 5721 stig frá Norðurlandamóti unglinga á dögunum.
 
Einar Daði Lárusson fer einnig mjög vel af stað, en hann hljóp 100m á 11,39 sek og stökk síðan 7,25 metra í langstökki, sem er bæting á hans besta árangri um 20 sm. Þá varpaði Einar Daði kúlunni 12,92 metra (6,0kg) og bætti sinn besta árangur í þeirri grein líka. Einar Daði varð fyrir því óláni að taskan hans kom ekki með fluginu frá Kaupmannahöfn í gær og hefur hann því þurft að fá lánað keppnisfatnað og skó, en hann þurfti m.a. að nota langstökksskó í 100m hlaupinu. Einar Daði stefnir að því að ná lágmarki fyrir EM unglinga í þrautinni, en lágmarkið er 7000 stig.
 
Við munum halda áfram að fylgjast með mótinu í Kladno í dag, en mótshaldarar eru ekki að standa sig í að koma úrslitum á netið, heimasíða mótsins er: www.desetiboj-kladno.cz

FRÍ Author