Helga Margrét bætti Íslandsmetið í fimmtarþraut um 175 stig

Hún byrjaði á að hlaupa 60m grindahlaup á 8,90 sek, stökk 1,67m í hástökki, varpaði kúlunni 13,24 metra, stökk 5,54m í langstökki og hljóp að lokum 800m á 2:20,67 mín. Helga fékk samtals 4018 stig, en gamla metið var 3843 stig, sett í San Diego 23. febrúar 2006.
Frábær árangur hjá Helgu Margréti sem verður 17 ára á þessu ári.
Þessi árangur er því met í fjórum aldursflokkum, 17-18 ára, 19-20 ára, 21-22 ára og í kvennaflokki.
 
Í öðru sæti varð Jóhanna Ingadóttir ÍR með 2884 stig, en hún keppti ekki í lokagreininni í fimmtarþrautinni, 800m hlaupi. Í þriðja sæti varð svo Helga Þráinsdóttir ÍR með 2413 stig.
 
Þorsteinn Ingvarsson HSÞ varð Íslansmeistari í sjöþraut karla, hlaut samtals 5129 stig og var hann 166 stigum frá unglingameti sínu í sjöþraut frá sl. ári, en það er 5295 stig. Í öðru sæti varð Ólafur Guðmundsson HSÞ með 4792 stig og Börkur Smári Kristinsson ÍR varð í þriðja sæti með 4291 stig.
 
Gísli Brynjarsson Breiðabliki varð Íslandsmeistari í sjöþraut sveina með 4175 stig, Jón Kristófer Sturluson Breiðabliki varð í öðru sæti með 3926 stig og Ari Jóhann Júlíusson UFA þriðji með 3883 stig.
 
Íslandsmeistari í fimmtarþraut meyja varð Guðrún María Pétursdóttir Breiðabliki, hlaut samtals 3191 stig, María Rún Gunnlaugsdóttir Ármanni varð í öðru sæti með 3091 stig og Linda Björk Valbjörnsdóttir UMSS varð í þriðja sæti með 3067 stig.
 
Heildarúrslit í sjöþraut karla og sveina og í fimmtarþraut kvenna og meyja eru að finna í mótaforritinu hér á síðunni.

FRÍ Author