Mikið um bætingar og aldursflokkamet á Vormóti ÍR

Mótinu lauk með aðalgrein kvöldsins, 3000 m minningarhlaupi um Jón Kaldal. Ingvar Hjartarson Fjölni leiddi hlaupið lengi vel og kom í mark fyrstur á 8:52,71 mín., en Björn Margeirsson UMSS gerði harða atlögu að Ingvari síðustu 200 m en náði ekki að vinna upp forskot Ingvars. Björn kom í mark á 8:54,57 mín., en Sæmundur Ólafsson ÍR kom 3. í mark á 8:56,26 mín.  Alls luku sjö keppendur hlaupinu að þessu sinni.
 
Mikil keppni var í langstökkinu milli þeirra Kristins Torfasonar úr FH og Þorsteins Ingvarssonar HSÞ. Kristinn hafði yfirhöndina að þessu sinni, en hann stökk 7,41 m í öðru stökki, en Þorsteinn var ekki langt á eftir með 7,29. Mótvindur var í langstökkinu, en vindur snérist eftir að keppnin hófst.
 
Björg Gunnarsdóttir úr ÍR kom á óvart og sigraði með góðri bætinu í 100 m hlaupinu á 12,67 sek., en Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir varð önnur á 12,78 sek. Þær hlupu í sitthvorum riðlinum og mótvindur var hjá þeim báðum, 1,6 m/sek. hjá Björgu en 4 m/sek í riðli Hrafnhild. Björg sigraði einnig í 400 m hlaupinu  á 56,03 sek, sem einnig er persónuleg bæting hjá henni.
 
Kristinn Þór Kristinsson HSK sigraði nokkuð sannfærandi í 800 m hlaupi karla á 1:55,36 mín, en Snorri Sigurðsson ÍR hafði betur í góðri baráttu við nafna sinn og æfingafélaga úr ÍR Snorra Stefánsson en sá fyrrnefndi kom í mark á 1:57,61 mín, en sá síðarnefndi á 1:58,22 mín.
 
Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA sigraði í 100 m og 200 m hlaupum á mótinu.
 
Alls voru 117 keppendur skráðir til leiks frá 14 félögum og samböndum, en heildarúrslit mótsins er hægt að sjá hér.

FRÍ Author