Hafdís á leiðinni á sitt fjórða EM

Hafdís Sigurðardóttir hefur verið ein fremsta frjálsíþróttakona Íslands síðustu ár og á Íslandsmetið í langstökki innanhúss og utanhúss. Hafdís fékk á dögunum keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum sem fer fram um helgina og er því á leiðinni á sitt fjórða Evrópumeistaramót. 

Íslandsmeistari sjö mánuðum eftir sitt fyrsta barn

„Það gekk mjög vel á meðgöngunni. Ég var í góðu formi þegar ég varð ófrísk og náði að halda mér nokkuð vel við. Ég var ennþá að hlaupa og hoppa þegar ég var komin 20 vikur.“ Hafdís segist hins vegar hafa verið róleg undir lokin en þó alltaf farið í ræktina og verið duglega að hreyfa sig. Þremur mánuðum eftir að hún átti dóttur sína fór hún að æfa meira markvisst. Eftir áramót höfðu æfingarnar gengið vel svo hún ákvað að setja stefnuna á Meistaramót Íslands. Þar gekk henni mjög vel þar sem hún stökk yfir 6 metra og varð Íslandsmeistari.

Tvisvar sinnum einum sentimetra frá lágmarkinu

Hafdísi hefur gengið vel á yfirstandandi keppnistímabili og verið að stökkva mjög nálægt sínum besta árangri. Íslandsmet Hafdísar innanhúss er 6,54 metrar og hefur hún tvisvar með stuttu millibili stokkið 6,49 metra. Hafdís segist vera ánægð með að vera að stökkva svona langt en hins vegar sé einnig mjög svekkjandi að vera tvisvar sinnum einum sentimetra frá lágmarkinusem er 6,50 metrar. „Þetta er búið að vera mikið álag og ef ég hefði strax stokkið 6,50 og verið komin inn á mótið þá hefði ég raðað þessu keppnistímabili öðruvísi upp hjá mér. Þá hefði ég strax getað farið að einbeita mér að EM í stað þess að eyða orkunni í það að reyna að ná lágmarkinu.“ 

Reynslunni ríkari eftir þrjú Evrópumeistaramót

Mótið um helgina er fjórða Evrópumeistaramót Hafdísar og telur hún að það hjálpi henni um helgina að hafa keppt á stórmóti áður. Þetta er risastórt mót og finnur hún alltaf fyrir stressi en reynir að breyta því í jákvæða orku. Umstangið á mótinu er stórt, það eru mörg ,,call room“ og langur aðdragandi að keppninni sjálfri svo mikilvægt er að hafa einbeitingu og orku í það. Draumurinn er að setja Íslandsmet og komast í úrslit en aðalmarkmið hennar er að hafa gaman og reyna að stökkva sem lengst. „Þetta eru ótrúlega sterkir keppendur sem ég er að fara að mæta þarna að ég í rauninni er bara að fara þarna og vera stolt af sjálfri mér, hafa gaman og reyna að ná út úr mér því sem ég veit að ég get.“

Hvetur unglinga til að halda lengur áfram

Aðspurð að því hvað sé mikilvægast til þess að ná langt í íþróttinni sé allt þetta helsta að vera dugleg að æfa, lifa heilbrigðu lífi og hugsa um mataræðið og svefninn. En fyrst og fremst vill hún hvetja unglinga til að hætta ekki of snemma og gefast ekki upp þótt þau lendi í mótlæti. „Þegar ég horfi til baka á sjálfa mig og minn feril frá því þegar ég var unglingur þá vantaði svo mikið upp á hjá mér. Mig vantaði mikið upp á tæknina og að skilja hvernig þetta virkar allt saman. Með árunum hef ég þroskast sem íþróttamaður og einstaklingur og sérstaklega eftir að ég varð mamma. Núna finnst mér ég eiga auðveldara með að skilja og meðtaka allt það sem er ætlast til af mér eins og það sem þjálfararnir eru að biðja mig um að gera. Ég vil bara hvetja krakka til að halda áfram og ekki hætta svona snemma og gefast upp þegar það blæs á móti. Það eru margir efnilegir krakkar og unglingar og ef þau halda svo ekki áfram þá maður veit aldrei hvað hefði getað orðið.“

Langstökkskeppnin hjá Hafdísi hefst klukkan 10:00 laugardaginn 2. Mars og verður sýnt frá henni í beinni útsendingu á RÚV.