Guðni Valur með EM lágmark

Guðni Valur Guðnason náði í kvöld lágmarki fyrir EM í frjálsum íþróttum með næst lengsta kasti Íslandssögunnar. Guðni Valur kastaði 65,53 metra í Kaplakrika í Hafnarfirði í kvöld. Fyrir átti hann best 63,50 metra svo hann var því að bæta sig allverulega. Þetta kast setur Guðna Val í 12. sæti Evrópulistans á þessu ári.

Íslandsmetið í kringlukasti á Vésteinn Hafsteinsson þegar hann kastaði 67,64 metra árið 1989.

EM fer fram í Berlín í Þýskalandi í ágúst. Fjórir aðrir Íslendingar hafa tryggt sér þáttökurétt, þau Aníta Hinriksdóttir, Ásdís Hjálmsdóttir, Sindri Hrafn Guðmundsson og Arna Stefanía Guðmundsdóttir. Arna Stefanía mun þó ekki keppa á mótinu þar sem hún á von á barni.