Guðni Valur í sjöunda sæti

Samtök íþróttafréttamanna útnefndu í gær íþróttamann ársins eins og hefð er fyrir ár hvert. Alls fengu 25 íþróttamenn atkvæði í kjörinu í ár og þar á meðal voru fimm frjálsíþróttamenn. Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason varð sjöundi í kjörinu. Guðni Valur bætti Íslandsmetið í kringlukasti sem staðið hafði í 31 ár og átti fimmta lengsta kast ársins í heiminum.

Aðrir sem komust á blað voru sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson, spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir Annerud, langhlauparinn Hlynur Andrésson og sleggjukastarinn Vigdís Jónssdóttir.

Samtök íþróttafréttamanna völdu íþrótamann ársins í fyrsta skipti árið 1956. Það var þrístökkvarinn Vilhjálmur Einarsson sem fékk þann heiður og hlaut hann viðurkenninguna alls fimm sinnum. Vala Flosadóttir var síðust frjálsíþróttamanna til þess að vera kosin íþróttamaður ársins, árið 2000.

Íþróttamaður ársins í ár var knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir. Var hún vel að titlinum komin og óskar Frjálsíþróttasamband Íslands henni til hamingju.