Guðni Valur hefur lokið keppni á HM

Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason hefur lokið keppni á HM í frjálsíþróttum sem fram fer í Dóha, Katar þess dagana. Fyrri kasthópur í undankeppni kringlukastsins hefur nýlokið keppni þar sem Guðni var á meðal keppenda. Til þess að tryggja sig beint inn í úrslitin hefði Guðni þurft að kasta yfir 65,50 metra eða enda á meðal tólf efstu í báðum kasthópum.

Guðni Valur fékk þrjú köst og gerði tvö þeirra ógild. Eina gilda kastið hans kom í annarri tilraun og var það 53,91 metri. Það dugir ekki og varð Guðni sextándi í sínum kasthóp og því úr leik.

Besti árangur Guðna Vals í greininni er 65,53 metrar og því ætti hann fullt erindi inn í úrslitin á góðum degi. Guðni hefur lítið getað kastað síðastliðið ár vegna veikinda og meiðsla. Hann hefur nú náð sér af þeim og því má segja að þetta mót, sem var hans fyrsta Heimsmeistaramót, sé stórt skref í áttina að Ólympíuleikunum í Tókýó 2020 þar sem Guðni Valur verður vonandi á meðal keppenda.

Guðni Valur er eini íslenski keppandinn á mótinu og því er þátttöku Íslands á HM í Katar lokið. Hér má sá öll úrslit kringlukastsins.