Guðni Valur á HM

Heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum fer fram í Dóha, Katar 27. september til 6. október. Íslendingar eiga einn keppanda á mótinu og er það kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason. Guðni Valur á 30. besta árangurinn í ár og er þar með einn af 33 keppendum sem öðluðust keppnisrétt á mótinu þrátt fyrir að hafa verið að glíma við meiðsli og lítið getað keppt í sumar.

Guðni hefur stimplað sig inn síðustu árin sem einn fremsti kringlukastari heims og verður þetta hans fjórða stórmót í fullorðinsflokki en fyrsta Heimsmeistaramót. Hann tók þátt á Ólympíuleikunum 2016 og Evrópumeistaramótinu 2016 og 2018. Á mótinu mun hann mæta allra bestu kringlukösturum heims og getur það verið dýrmæt reynsla fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020 þar sem hann á góða möguleika á þátttöku. Einnig getur góður árangur á stórmótum verið mikilvægur þar sem valið verður inn á Ólympíuleikana eftir nýjum heimslista þar sem árangur á sterkum mótum hefur meira vægi og þar er HM í hæsta styrkleikaflokki.

Undankeppni kringlukastsins fer fram í tveimur riðlum á laugardaginn, 28. september klukkan 13:15 og 14:45 á íslenskum tíma. Úrslitin fara svo fram mánudaginn, 30. september klukkan 18:25. Mótið verður sýnt í beinni útsendingu á RÚV.

Hér er hægt að fá frekari upplýsingar um mótið og fylgjast með úrslitum