Guðni tók silfrið í Split

Íslandsmethafinn í kringlukasti karla, Guðni Valur Guðnason, tók silfrið í Split eftir að hafa leitt keppnina fyrstu fimm umferðirnar. Guðni kastaði 63,66 metra og var það Ungverjinn János Huszák sem sigraði með kast upp á 65,35 metra. 

Elísabet Rut Rúnarsdóttir hafnaði í áttunda sæti í jafnri sleggjukast keppni í flokki U23 ára kvenna. Aðeins munaði 2,76 metrum á fyrsta og níunda sæti og kastaði Elísabet 61,31 metra. Íslandsmet hennar í greininni er 64,39 metrar. Það var Ítalinn Cecilia Desideri sem sigraði og kastaði 63,99 metra.

Hilmar Örn Jónsson hafnaði í sextánda sæti í sleggjukasti og var töluvert frá sínu besta. Hann gerði hann aðeins eitt kast gilt sem mældist 68,62 metra. Hilmar er búinn að kasta 73,63 metra lengst í ár sem hann gerði í Laugardalnum fyrir tveimur vikum. Íslandsmet Hilmars í greininni er 77,10 metrar. Það var Tyrkinn Esref Apak sem sigraði keppnina og kastaði 75,99 metra.

Mímir Sigurðsson hafnaði í níunda sæti í kringlukasti í flokki U23 karla með kast upp á 54,23 metra sem er rúmur metri frá hans besta. Það var Hvít-Rúsinn Yauheni Bahutski sem sigraði á nýju mótsmeti og kastaði hann 64,37 metra. Mímir er búinn að kasta 55,32 metra lengst í ár sem er 22 sentímetrum frá hans persónulega besta árangri.