Guðbjörg Jóna Bjarnadótti (ÍR) bætti í gærkvöldi eigið Íslandsmet og sigraði í sterku 60 metra hlaupi á Aarhus Sprint ‘n’ Jump í Árósum í Danmörku. Guðbjörg hljóp fyrst í undanúrslitum og kom þá önnur í mark á tímanum 7,55 sek. og tryggði sig þar með beint í úrslitin. Í úrslitnum kom hún fyrst í mark á glæsilegu nýju Íslandsmeti 7,35 sek. og bætti fyrra metið um átta sekúndubrot.
„Ég gat ekki hætt að tárast. Þetta er í fyrsta skiptið í langan tíma sem mér hefur liðið vel eftir hlaup,“ sagði Guðbjörg eftir hlaupið.
Mótið er flokkað sem brons mót á innanhússmótaröð Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, World Athletics Indoor Tour og gefur því mikilvæg auka stig sem hjálpar til við stöðu á heims- og evrópulista fyrir komandi stórmót. Þar sem Guðbjörg sigraði fær hún 60 auka stig fyrir árangurinn.
Tveir aðrir Íslendingar voru á meðal keppenda á mótinu. Irma Gunnarsdóttir (FH) varð í þriðja sæti í þrístökki kvenna með stökk upp á 12,87 metra. Kolbeinn Höður Gunnarsson varð sjötti í 60 metra hlaupi karla á tímanum 6,73 sek.
