Guðbjörg Jóna til Svíþjóðar

Penni

3

min lestur

Deila

Guðbjörg Jóna til Svíþjóðar

Í október síðastliðnum fór Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir til Svíþjóðar til að æfa með liðinu MAI í Malmö. Hún var þar til reynslu í þrjár vikur í október og mun svo flytja út eftir áramót.

Hvernig fannst þér að æfa í Svíþjóð?

“Ég ákvað að prófa nýtt umhverfi æfingalega séð og leist bara svona líka vel á mig í Malmö þannig ég er að fara að flytja þangað um áramótin. Ég kem líka eitthvað heim til að keppa og mögulega æfa líka. Þetta er aðallega hugsað til að prófa eitthvað nýtt. Ég fór þarna út til þess að sjá hvernig æfingarplanið þeirra var sett upp og mér leist bara mjög vel á. Þau eru með þrjár erfiðar vikur í röð og svo eina auðveldari, þannig já þetta fór bara svona vel”

Eitthvað fleira á dagskrá en að æfa og hvernig sérðu framhaldið ef vel gengur?

“Ég ætla líka, á meðan ég er að æfa, að sækja um mastersnám í háskólanum í Malmö eða háskólanum í Lund, er ekki alveg búin að ákveða mig. Ég ætla allavega að æfa og keppa framm í ágúst því að þá byrjar námið. Þannig ég ætla bara að sjá hvort ég komist ekki alveg örugglega inn, þannig já, það er planið að æfa og fara í mastersnám. Klára það.”

Hvað hvatti þig til að fara út?

“Sko mig er búið að langa að prufa eitthvað nýtt í einhvern tíma og ég held að það sé bara hollt og gott fyrir alla að prufa nýtt umhverfi svona ef maður getur og ég hafði tækifæri til þess þannig ég ákvað bara að skella mér. Ég er í smá afneitun um að ég sé að gera þetta því ég er svo heimakær, en þetta er eitthvað sem ég þarf að gera til þess að fara út fyrir þægindaramman og ég held að maður verði bara betri íþróttamaður ef eitthvað er að fara út fyrir þægindarammann og prufa eitthvað nýtt. Myndi því segja að þetta hafi verið sambland af fólkinu í kringum mig og ég sjálf sem hvatti mig til þess að fara út.”

Hvers vegna valdir þú þennan stað?

“Ég þekki einhverjar stelpur þarna úti í Malmö, það eru tvær sem æfa reyndar í Helsingjaborg sem er rétt hjá Malmö en svo þekki ég eina sem er í sama liði og ég er að fara æfa með. Svo var ég reyndar líka búin að tala við eina frá Lúxemburg hvort ég gæti prufað að koma til þeirra en ég ákvað svona til þess að byrja með að það væri betra að koma til Svíþjóðar uppá að geta komið hingað heim í svona stutt ferðalag. Malmö er bara 15 mínútna lest frá Kaupmannahafnarflugvellinum þannig mjög þægilegt að ferðast. Ég fékk góða aðstoð við að vera í sambandi við þjálfarann í Malmö liðinu, þetta er 400m þjálfari þannig að það er möguleiki á að maður skipti um grein en ég veit ekki alveg.”

Kanntu sænsku?

“Jag pratar lite svenska, en ég er að æfa mig og er komin með 58 daga á Duolingo. Svo tala þau alltaf sænsku og útskýra fyrir mér á ensku ef ég skil ekki eitthvað. En mér finnst þetta frekar auðvelt tungumál þannig ég skil langmest af því sem þau eru að segja. Það er síðan ein í liðinu sem að talar alltaf bara sænsku og ég á að svara henni á móti. Hún er að æfa mig í sænskunni þannig ég fæ smá hjálp.”

Hvernig er framhaldið?

“Ég er að fara í æfingabúðir með þeim dagana 1.-16. janúar en ég og Guðni Valur kærastinn minn förum út þann 27. desember. Fyrsta mótið mitt í Svíþjóð er 19. janúar þannig ég er eitthvað að reyna að púsla þessu saman, því ég þarf einhvernveginn að flytja þarna í millitíðinni og svo er planið líka að keppa í Danmörku stuttu eftir það. Ég kem sem sagt beint inn í mótatímabilið en það er bara gaman”


Við hlökkum til að fylgjast með Guðbjörgu Jónu og óskum henni góðs gengis!

Penni

3

min lestur

Deila

Guðbjörg Jóna til Svíþjóðar

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit