Guðbjörg Jóna og Helga Margrét kepptu á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í dag

Í dag kepptu tveir keppendur frá Íslandi á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir keppti í 200 m hlaupi og Helga Margrét Haraldsdóttir í þrístökki.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR keppti til úrslita í 100 m hlaupi á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í gær. Hún hljóp á tímanum 11,78 sekúndum (+6,6 m/s) og hafnaði í 5. sæti. Vindur í hlaupinu var því of mikill til að tíminn sé löglegur en engu að síður er þetta frábær tími hjá henni.

Hún keppti í undanriðlum í 200 m hlaupi í dag. Hún hljóp á timanum 24,77 sekúndum (+0,8 m/s), hafnaði í 2. sæti í sínum riðli og komst beint áfram í undanúrslit. Í undanúrslitunum hljóp hún á tímanum 24,57 sekúndum (+0,3 m/s), hafnaði í 3. sæti í sínum riðli og er komin í úrslit! Frábær árangur hjá Guðbjörgu Jónu!

Helga Margrét Haraldsdóttir ÍR keppti í þrístökki í dag. Hún stökk 11,57 m (-0,2 m/s) sem er bæting hjá henni. Glæsilegur árangur hjá Helgu Margréti!

Birna Kristín Kristjánsdóttir Breiðabliki keppti til úrslita í langstökki í gær. Hún stökk lengst 5,37m (+4,9) og hanaði í 11. sæti, en öll stökkin voru um 5,30 m.  Þess má geta að Birna Kristín var eina stúlkan af 12 keppendum í úrslitum á yngra keppnisári en hún er fædd árið 2002. Flottur árangur hjá henni!

Hér má sjá nánari úrslit frá mótinu.

FRÍ óskar stelpunum innilega til hamingju með glæsilegan árangur og sendir þeim baráttustrauma 🙂