Guðbjörg Jóna með nýtt stúlknamet á seinni degi MÍ 15-22 ára

Meistaramót Íslands 15-22 ára fór fram í Kaplakrika um helgina. Heildarstigakeppnina sigraði ÍR með 392 stig, í öðru sæti varð HSK/Selfoss með 305 stig og í því þriðja var FH með 288 stig. Flestu Íslandsmeistaratitla fékk FH sem fékk 24 gullverðlaun. Með næstflesta var ÍR með 20 gullverðlaun og HSK/Selfoss með 15. Margir voru að bæta sín persónulegu met og á seinni degi mótsins voru sett fimm mótsmet.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, bætti mótsmetið, sinn persónulega besta árangur og setti nýtt stúlknamet í 200 metra hlaupi í flokki 18-19 ára og 20-22 ára. Fyrra stúlknametið var 24,09 sekúndur sem Guðbjörg setti á stórmóti ÍR síðustu helgi. Núna um helgina hljóp hljóp hún á tímanum 24,05 sekúndur og fer því að styttast í Íslandsmet kvenna sem Silja Úlfarsdóttir setti árið 2004. Það er 23,79 sekúndur.

Dagbjört Lilja og Ingibjörg í 4×200 metra stúlkna sveit ÍR

Guðbjörg Jóna var einnig í 4×200 metra sveit ÍR ásamt Helgu Margréti Haraldsdóttur, Dagbjörtu Lilju Magnúsdóttur og Ingibjörgu Sigurðardóttur sem setti nýtt mótsmet þegar þær hlupu á tímanum 1:43,25.

Í 60 metra grindarhlaupi 15 ára pilta setti Sebastian Þór Bjarnason, HSK/Selfoss, nýtt mótsmet. Sebastian kom í mark á tímanum 8,82 sekúndur sem er persónulegt met. Annar varð Sæþór Atlason, HSK/Selfoss, á tímanum 9,11 sekúndur, einnig á persónulegu meti.

15 ára piltar í 4×200 metra sveit FH

Sveit FH í 4×200 í metra boðhlaupi 15 ára pilta setti mótsmet þegar þeir komu í mark á tímanum 1:41,80. Í sveitinni voru Stefán Torrini Davíðsson, Alexander Broddi Sigvaldason, Hilmir Þór Hugason og Halldór Björnsson.

Hér má sjá öll úrslit og hér eru myndir af mótinu.