Góður árangur á NM í Finnlandi

Norðurlandameistaramót í frjálsum íþróttum 19 ára og yngri fór fram í Vasaa í Finnlandi nú um helgina.
 
 
Íslensku keppendunum gekk ágætlega á mótinu og komust tveir keppendur á verðlaunapall á laugardeginum. Einar Daði Lárusson sigraði í 400m grindahlaupi á tímanum 53,61s. Þá náði Örn Davíðsson þriðja sæti í kúluvarpi með 6kg kúlu, þar sem hann kastaði 16,64m. Þetta er lengsta skráða kast með 6 kg kúlu í flokki drengja 20 ára og yngri hér á landi.
 
 
Hið 11 manna keppnislið Íslands hélt áfram að gera góða hluti á sunnudeginum. Hæst ber sannarlega spjótkast karla þar sem Örn Davíðsson kom mjög á óvart. Örn gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina og bætti sig um rétt rúma 7 metra, kastaði 70,86 metra og átti alls 4 gild köst yfir 70 metra. Þessi árangur er næst besti árangur frá upphafi í spjótkasti í flokki 20 ára og yngri, en það má til gamans geta að með þessu kasti ýtti Örn fjölmiðlamanninum Sigmari Vilhjálmssyni niður í þriðja sæti á afrekaskránni.
 
 
Frekari úrslit af mótinu má sjá hér.
 

FRÍ Author