Góður árangur á fyrri degi MÍ

 Hafdís nældi í samtals fern gullverðlaun í gær.  Hún sigraði í 100 m hlaupi, 400m hlaupi, langstökki og var í sigursveit UFA í 4×100 m boðhlaupi.  
 
Einar Daði Lárusson, tugþrautarmaður úr ÍR, nældi í tvenn gullverðlaun og 1 silfurverðlaun á fyrri keppnisdegi.  Hlaut hann gullverðlaun í 110 m grindahlaupi og hástökki og silfurverðlaun í langstökki.  Í hástökki deildi hann gullverðlaununum með öðrum tugþrautarmanni og FH-ingnum Hermanni Þór Haraldssyni.  Það var Kristinn Torfason úr FH sem sigraði langstökkið er hann stökk 7,23 m.
 
Sjöþrautarkonan Sveinbjörg Zophoníasdóttir úr FH hafnaði í 2. sæti bæði í langstökki og 100 m grindahlaupi.  Sigurvegarinn í 100 m grindahlaupi kvenna var Krístín Birna Ólafsdóttir-Johnson en hún kom í mark á tímanum 14,05 s.
 
Hilmar Örn Jónsson úr ÍR sigraði í sleggjukasti karla er hann kastaði 68,58 m.  Hann hefur kastaði karla sleggjunni lengst 68,65 m en lágmark í Ólympíuhóp FRÍ er 69,00 m.  Hann þykir því mjög líklegur til að bætast í hópinn síðar í sumar.  Hilmar Örn keppir enn í flokki 18-19 ára þar sem þyngd sleggjunnar er 6,0 kg.  Mun hann keppa á HM í Eugene seinna í sumar í þeim aldursflokki.  Vigdís Jónsdóttir úr FH sigraði í sleggjukasti kvenna er hún kastaði 52,70 m.
 
Spjótkast kvenna sigraði Ármenningurinn Ásdís Hjálmsdóttir.  Hún kastaði lengst 55,51 m.  Aníta Hinriksdóttir, úr ÍR, sigraði í 1500 m hlaupi kvenna á tímanum 4:27,93 mín.  Stangarstökk kvenna sigraði Rakel Ósk Björnsdóttir en hún stökk 3,42 m.  
 
100 m hlaup karla sigraði Jóhann Björn Sigurbjörnsson úr UMSS en hann kom í mark á 10,77 s.  Ívar Kristinn Jasonarson úr ÍR sigraði í 400 m hlaupi karla en hann kom í mark á tímanum 49,33 s.  Hlynur Andrésson úr ÍR sigraði 1500 m hlaup karla á tímanum 3:55,94 mín.  Það var síðan karlasveit ÍR sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi á tímanum 42,47 s.
 
Seinni hluti meistaramótsins hefst kl 11 í dag með undanrásum í 200 m hlaupi karla og kvenna.  Dagskráin hefst svo að fullu kl 13:30 og stendur til 16:10.  Tímaseðil og úrslit má finna í mótaforriti FRÍ, http://mot.fri.is/cgi-bin/ibmot/timesedillib2291.htm.
 
Myndina af Sindra Hrafni Guðmundssyni sem fylgir fréttinni tók Gunnlaugur Júlíusson.
 
 

FRÍ Author