Góður árangur á fyrri degi NM U20

Góður árangur náðist hjá íslensku keppendunum á fyrri degi Norðurlandamótsins 19 ára og yngri. Ísland og Danmörk skipa sameiginlegt lið gegn, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Í liðakeppninni er stigastaðan sú að Noregur leiðir kvennakeppnina með 93 stig og Danmörk-Ísland er í öðru sæti með 87 stig. Í karlakeppninni leiðir Svíþjóð með 100 stig og Danmörk-Ísland er í fjórða sæti með 66 stig.

Í einstaklingskeppninni hafa fimm íslenskar stelpur unnið til verðlauna. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sigraði 100 metra spretthlaupið og varð Norðurlandameistari 19 ára og yngri. Tiana Ósk Whitworth lenti í öðru sæti í hlaupinu. Litlu munaði á þeim Guðbjörgu og Tiönu en Guðbjörg kom í mark á 11,47 sekúndum og Tiana á 11,53 sekúndum. Tíminn hjá þeim báðum var betri en ríkjandi Íslandsmet Sunnu Gestsdóttur frá 2004 sem er 11,63 en þar sem meðvindur var 2,7 metrar á sekúndu var ekki um nýtt Íslandsmet að ræða.

Erna Sóley Gunnarsdóttir fékk silfur í kúluvarpi þegar hún varpaði kúlunni 14,21 metra. Aðeins 16 sentimetrum styttra en hjá Theu Jensen, dönskum liðsfélaga hennar. Birna Kristín Kristjánsdóttir fékk brons í langstökki þegar hún stökk 5,86 metra. Í langstökki keppti einnig Vilborg María Loftsdóttir. Hún stökk 5,30 metra og lenti í sjöunda sæti. Þórdís Eva Steinsdóttir keppti í 400 metra hlaupi og fékk þar brons. Hún hljóp á tímanum 55,48 sekúndum í miklum vind. Helga Þóra Sigurjónsdóttir og Eva María Baldursdóttir kepptu báðar í hástökki. Helga stökk 1,66 metra og varð sjötta og Eva stökk 1,63 metra og varð áttunda.

Mímir Sigurðsson keppti í kringlukasti og kastaði lengst 48,67 metra sem skilaði honum sjötta sætinu. Baldvin Þór Magnússon varð fimmti í 5000 metra hlaupi á tímanum 16:40,77 mínútum. Hinrik Snær Steinsson hljóp 400 metrana á 50,22 sekúndum sem er hann næst besti tími frá upphafi.

Í 4×100 metra boðhlaupi gerð íslenska kvennasveitin ógilt.

Öll úrslit mótsins má finna hér