Þjálfarar Snæfells þær Björg Gunnarsdóttir og Sveinbjörg Zophoníasdóttir, fyrrum landsliðskonur, vinna nú saman að því að byggja upp frjálsíþróttastarfið í Stykkishólmi. Þær þjálfa krakka á grunnskólaaldri og hafa fengið góðar undirtektir enda uppbyggingarstarf þeirra til fyrirmyndar. Það er því óhætt að segja að framtíðin sé björt.
En hvernig byrjaði þetta og hvernig hefur gengið?
Björg:
“Þetta byrjaði þannig að ég flutti hingað í Stykkishólm í sumar og hafði mikinn áhuga á að rífa upp frjálsarnar hérna. Ég var svo heppin að Sveinbjörg er á staðnum líka svo að við fórum svolítið í þetta saman. Það hefur gengið rosalega vel, mikill áhugi í bænum, bæði meðal foreldra og krakka.
Það er mikil frjálsíþróttahefð hérna í bænum, þess vegna held ég að þetta hafi byrjað svona vel. Vantaði einstaklings íþróttir.”
Sveinbjörg:
“Algjörlega, flott að fá frjálsarnar inn, því núna er fótboltinn og körfuboltinn búinn að vera ríkjandi íþrótt hérna í Stykkishólmi og maður finnur alveg hvað krakkarnir eru ánægðir að fá valið um bæði einstæklings íþrótt og liðsíþrótt þannig ég held að það eigi bara eftir að styrkja íþróttastarfið.”
Hvernig gekk að fá fólk með ykkur í þetta verkefni ?
Sveinbjörg:
“Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á íþróttastarfinu hérna í Stykkishólmi, bæði hjá foreldrum og fleirra fólki. Ég held að það eigi eftir að reynast okkur mjög vel að vera í svona litlu bæjarfélagi þar sem fólk er tilbúið til að hjálpast að. Ég held að það verði ekki vesen að fá fólk til að hjálpa okkur að rífa starfið upp og halda þessu gangandi. Við höfum líka fundið fyrir áhuga í nágranna sveitafélögum.”
Björg:
“Já, Grundarfjörður og Ólafsvík eru með flott frjálsíþróttastarf og við höfum einmitt fengið spurningar frá fleirri sveitafélögum í nágrenninu. Það er greinilega brennandi áhugi á Vesturlandi.”
Hvernig ganga æfingar?
Björg:
“Æfingarnar ganga mjög vel hjá okkur. Það eru rúmlega 60-70 iðkendur hérna vikulega frá 1. – 10. bekk og eins og staðan er núna þá æfir hver hópur einu sinni í viku. En við vonumst til að fá fleirri æfingatíma á næsta ári.”
Hvernig er aðstaðan?
Sveinbjörg:
“Aðstaðan sem við erum að vinna með er fín. En auðvitað vonum við að eftir því sem áhuginn verður meiri og fleirri mæta á æfingar að við fáum meiri og betri búnað og að vellinum verði sinnt, gott viðhald á honum og svona. En hér erum við að byrja og við bara notum og vinnum með það sem við höfum.”
Hver eru langtímamarkmið fyrir frjálsar á Stykkishólmi?
Björg:
“Við erum með háleit markmið hérna í frjálsum í Stykkishólmi, við sjáum fyrir okkur að hafa keppendur á Meistaramóti Íslands fullorðinna einn daginn og svo er auðvitað langtímamarkmið hjá okkur að fá tartanbraut í Stykkishólm, það myndi gefa okkur mikið.”
Hér fyrir neðan má sjá myndir frá æfingu hjá Snæfelli