Glæsilegur árangur á MÍ í fjölþrautum um helgina

Meistaramót Íslands í fjölþrautum fór fram á Kópavogsvelli um helgina. Góður árangur náðist á mótinu og var mikið um persónulegar bætingar. Veðrið setti strik í reikninginn á laugardeginum en þá rigndi mikið á köflum, sérstaklega fyrri part dags.

Á laugardeginum fór fram fimmtarþraut pilta og stúlkna 15 ára og yngri.

Í piltaflokki sigraði Dagur Fannar Einarsson Selfossi. Dagur Fannar hlaut samtals 2.856 stig í þrautinni og bætti hann sig töluvert en hann átti áður best 2.143 stig. Jón Þorri Hermansson UFA hafnaði í 2. sæti og Guðmundur Auðunn Teitsson Aftureldingu í því þriðja.

Í stúlknaflokki sigraði Hildur Helga Einarsdóttir Selfossi. Hún hlaut 4.031 stig og var einnig að bæta sinn fyrri árangur töluvert en hún átti áður best 3.855 stig. Signý Hjartardóttir Fjölni hafnaði í 2. sæti og Katrín Tinna Pétursdóttir Fjölni hafnaði í 3. sæti.

Keppt var í sjöþraut stúlkna og kvenna og tugþraut pilta og karla á laugardegi og sunnudegi.

Í sjöþraut stúlkna 16-17 ára sigraði Katla Rut Robertsdóttir Kluvers Breiðabliki eftir góða keppni Grétu Örk Ingadóttur FH. Katla Rut hlaut samtals 4.032 stig. Hún bætti sig í spjótkasti á mótinu er hún kastaði 29,63 m, 200 m hlaupi er hún hljóp á 27,22 sekúndum (+0,3 m/s), kúluvarpi er hún kastaði 10,07 m og hástökki er hún stökk yfir 1,45 m.

Í tugþraut pilta 16-17 ára sigraði Kolbeinn Tómas Jónsson ÍR en hann hlaut samtals 6.166 stig og var að bæta sinn fyrri árangur um 191 stig en hann átti áður 5.975 stig frá því á Norðurlandamóti unglinga fyrr í sumar. Hann bætti sig í 110 m grindahlaupi er hann hljóp á tímanum 15,56 sekúndum (+0,0 m/s), stangarstökki er hann stökk yfir 3,21 m og í spjótkasti er hann kastaði spjótinu 45,24 m. Ragúel Pino Alexandersson UFA hafnaði í 2. sæti og Úlfur Árnason ÍR í því þriðja. Þeir bættu allir sinn persónulega árangur.

Í tugþraut pilta 18-19 ára sigraði Guðmundur Karl Úlfarsson Ármanni. Hann hlaut 6.712 stig og var hann að bæta sinn persónulega árangur en hann átti áður best 6.511 stig. Hann jafnaði sinn besta árangur í 100 m hlaupi er hann hljóp á tímanum 11,23 sekúndum. Hann bætti sig í 400 m hlaupi er hann hljóp á tímanum 40,63 sekúndum, 110 m grindahlaupi er hann hjóp á tímanum 15,21 sekúndu, stangarstökki utanhúss er hann stökk 4,71 m og 1500 m hlaupi er hann hljóp á tímanum 4:50,21 sekúndu.

Í tugþraut karla 20 ára og eldri sigraði Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki. Hann hlaut 7.044 stig sem er hans þriðji besti árangur á ferlinum. Hann bætti sig í spjótkasti er hann kastaði 53,31 m. Ari Sigþór Eiríksson Breiðabliki hafnaði í 2. sæti og Benjamín Jóhann Johnsen ÍR í 3. sæti.

Hér má sjá öll úrslit frá mótinu.