Glæsilegur árangur á Meistaramóti Íslands um helgina

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fór fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal um helgina.

FH sigraði heildarstigakeppnina með samtals 32.427 stig, ÍR-ingar höfnuðu í 2. sæti með 30.498 stig og Breiðablik í því þriðja með 21.147 stig. FH-ingar hlutu einnig flest gullverðlaun eða 12 samtals.

Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH náði besta afreki mótsins og var það í 200 m hlaupi en hún hljóp vegalengdina á 24,68 sekúndum og hlaut 1040 stig fyrir.

Eitt mótsmet var sett um helgina en það var í 4×200 m boðhlaupi kvenna. Boðhlaupssveit FH setti nýtt met er hún hljóp á tímanum 1:40,52 mín og bætti hún metið um rúmar 3 sekúndur en fyrra metið var 1:43,54 sek og var í eigu ÍR-inga. Sveitina skipuðu þær María Rún Gunnlaugsdóttir, Arna Stefanía Guðmundsdóttir, Þórdís Eva Steinsdóttir og Melkorka Rán Hafliðadóttir.

Ari Bragi Kárason FH bar sigur úr býtum í 60 m hlaupi karla er hann hljóp á tímanum 6,94 sek, Jóhann Björn Sigurbjörnsson UMSS hafnaði í 2. sæti á tímanum 7,00 sek og Dagur Andri Einarsson FH var þriðji á 7,04 sek. Ari Bragi setti persónulegt met í undanúrslitunum er hann hljóp á 6,92 sek.

Dóróthea Jóhannesdóttir FH bar sigur úr býtum í 60 m hlaupi kvenna er hún hljóp á tímanum 7,71 sek og setti hún um leið persónulegt met. Andrea Torfadóttir FH hafnaði í 2. sæti á 7,73 sek og Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH var þriðja á 7,83 sek.

Bjarki Gíslason KFA vann yfirburðasigur í stangarstökki karla er hann stökk yfir 4,95 m og Hilda Steinunn Egilsdóttir FH sigraði stangarstökk kvenna á nýju persónulegu meti, 3,60 m.

María Rún Gunnlaugsdóttir FH sigraði hástökk kvenna og jafnaði sinn besta árangur með því að stökkva yfir 1,73 m í fyrstu tilraun og Kristján Viggó Sigfinnsson Ármanni sigraði hástökk karla er hann stökk yfir 1,94 m í fyrstu tilraun.

María Birkisdóttir FH kom fyrst í mark í 1500 m hlaupi kvenna er hún hljóp vegalengdina á tímanum 4:44,69 mín og Sæmundur Ólafsson ÍR sigraði í 1500 m hlaupi karla er hann hljóp á tímanum 4:05,45 mín. Voru þau bæði að hlaupa á sínum besta tíma á tímabilinu.

Bjarki Rúnar Kristinsson Breiðabliki sigraði þrístökk karla á nýju persónulegu meti, 14,09 m og Hildigunnur Þórarinsdóttir ÍR sigraði þrístökk kvenna með 11,66 m stökki.

Kristján Viktor Kristinsson Breiðabliki sigraði kúluvarp karla og bætti sig um 10 cm með því að kasta 15,77 m. Thelma Lind Kristjánsdóttir ÍR sigraði kúluvarp kvenna með 14,08 m kasti.

Hart var barist í 400 m hlaupum karla og kvenna. Í karlaflokki bar Kormákur Ari Hafliðason FH öruggan sigur úr býtum er hann hljóp á tímanum 49,71 sek en þeir Hinrik Snær Steinsson FH og Bjarni Anton Theódórsson Fjölni börðust hart um annað sætið. Svo fór að Hinrik Snær hafði betur og hafnaði hann í 2. sæti á tímanum 50,53 sek. Bjarni Anton var þriðji á tímanum 50,88 sek.

Í 400 m hlaupi kvenna börðust þær Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH og Þórdís Eva Steinsdóttir FH um Íslandsmeistaratitilinn og fór svo að Arna Stefanía sigraði á tímanum 55,75 sek og Þórdís Eva varð önnur á 55,82 sek. Melkorka Rán Hafliðadóttir FH hafnaði í 3. sæti á 58,02 sek.

Gríðarlega góður árangur náðist í 800 m hlaupi kvenna þar sem allir keppendurnir bættu sinn besta árangur.  Iðunn Björg Arnaldsdóttir ÍR sigraði hlaupið er hún kom í mark á tímanum 2:19,84 mín, Ingibjörg Sigurðardóttir ÍR hafnaði í 2. sæti á 2:21,22 mín og Dagbjört Lilja Magnúsdóttir ÍR varð þriðja á 2:23,35 mín.

Sæmundur Ólafsson ÍR sigraði 800 m hlaup karla á tímanum 1:56,12 mín, Hugi Harðarson Fjölni varð annar á 1:58,21 mín og Daði Arnarson Fjölni þriðji á 1:59,02 mín.

Mjög góður árangur náðist í 200 m hlaupi. Í kvennaflokki sigraði Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH er hún hljóp á tímanum 24,68 sek, Þórdís Eva Steinsdóttir FH hafnaði í 2. sæti á tímanum 24,97 sek og Helga Margrét Haraldsdóttir ÍR hafnaði í 3. sæti 25,43 sek.

Ari Bragi Kárason FH bar sigur úr býtum í 200 m hlaupi karla er hann hljóp á 22,03 sek, Guðmundur Ágúst Thoroddsen Aftureldingu hafnaði í 2. sæti á 22,19 sem er persónulegt met hjá honum. Kormákur Ari Hafliðason FH hafnaði í 3. sæti á tímanum 22,37 sek.

Hafdís Sigurðardóttir UFA var með glæsilega endurkomu í langstökki kvenna. Hún sigraði með yfirburðum er hún stökk 6,04 m. Stökkserían hennar var mjög góð og voru öll hennar stökk í kringum 6 metrana. Irma Gunnarsdóttir Breiðabliki hafnaði í 2. sæti með 5,82 m stökki og María Rún Gunnlaugsdóttir FH hafnaði í 3. sæti með 5,69 m.

Mikil barátta átti sér stað í 3000 m hlaupi kvenna. Var keppni æsispennandi fyrstu 11 hringi hlaupsins þar sem fyrstu fjórir hlaupararnir hlupu saman í einum hnapp. Fór svo að María Birkisdóttir FH sigraði hlaupið er hún tók glæsilegan endasprett síðustu 300 metrana. Hljóp hún á tímanum 10:13,69 mín sem er persónulegt met hjá henni. Andrea Kolbeinsdóttir ÍR hafnaði í 2. sæti á tímanum 10:17,55 mín og Elín Edda Sigurðardóttir ÍR hafnaði í 3. sæti á persónulegu meti, 10:17,81 mín.

Irma Gunnarsdóttir Breiðabliki bar sigur úr býtum í 60 m grindahlaupi kvenna er hún hljóp á tímanum 8,92 sek og Ísak Óli Traustason UMSS sigraði í karlaflokki á nýju persónulegu meti, 8,26 sek.

FH-ingar báru sigur úr býtum í 4×200 m boðhlaupi í karla-og kvennaflokki. Sveit ÍR hafnaði í 2. sæti í kvennaflokki og Breiðablik í því þriðja. Í karlaflokki hafnaði sveit Breiðabliks í 2. sæti og sveit ÍR í því þriðja.

Hér má sjá öll úrslit mótsins.

Þorkell Stefánsson hjá Frjálsíþróttavefnum Silfrið tók mörg flott myndbönd frá mótinu sem sjá má hér.

Myndirnar í þessari frétt eru teknar af Gunnlaugi A. Júlíussyni og má sjá allar myndirnar hér.