Glæsilegur árangur á Góumóti FH

Góumót FH fór fram í Kaplakrika á sunnudaginn. Á mótinu var aðallega keppt í aldurflokkunum 10 ára og yngri og upp í 16-17 ára og var mikið um persónulegar bætingar hjá keppendum.

Nokkrum aukagreinum var bætt við mótið í eldri flokkum eða 300 m og 5000 m hlaupum karla og kvenna og einnig kringlukasti kvenna og pilta 18-19 ára.

Spretthlauparinn Ívar Kristinn Jasonarson ÍR bætti sinn besta árangur í 300 m hlaupi en hann hljóp á tímanum 34,17 sekúndum og var nokkuð nálægt Íslandsmeti Trausta Stefánssonar FH sem er 34,05 sek frá því á mars í fyrra. Jason Sigþórsson FH og Daði Kolviður Einarsson Selfossi kepptu einnig í 300 m hlaupinu og bættu þeir báðir sinn fyrri árangur.

Birta María Haraldsdóttir FH kom fyrst í mark í 300 m hlaupi kvenna. Hún hljóp vegalengdina á tímanum 45,72 sekúndum og sem er bæting hennar besta árangri. Kristín Sif Sveinsdóttir FH hafnaði í 2. sæti á tímanum 47,54 sek.

Gríðarlega góður árangur náðist í 5000 m hlaupi kvenna. Hlaupakonan María Birkisdóttir FH leiddi allt hlaupið en Andrea Kolbeinsdóttir ÍR hljóp með henni. María tók góðan endasprett síðustu tvo hringina og endaði á tímanum 17:37,66 mínútum sem er nýtt persónulegt met hjá henni. María átti áður best 18:48,36 mín í 5000 m hlaupi á braut utanhúss og 18:36 mín í 5 km götuhlaupi. Þess má geta að Íslandsmetið í greininni er 17:25,35 mínútur og er það í eigu Fríðu Rúnar Þórðardóttur ÍR, sett árið 1994. María var því að höggva nokkuð nálægt því og verður spennandi að fylgjast með henni í hlaupunum í sumar.

Andrea Kolbeinsdóttir ÍR hafnaði í 2. sæti á tímanum 17:43,61 mínútum og setti hún um leið nýtt glæsilegt Íslandsmet í flokki 18-19 ára og 20-22 ára stúlkna. Metið í flokki 20-22 ára stúlkna var áður 17:45,88 mín og var það í eigu Írisar Önnu Skúladóttur Fjölni frá árinu 2010.

Helga Guðný Elíadóttir Fjölni hafnaði í 3. sæti í hlaupinu á tímanum 19:01,36 mín og Hulda Guðný Kjartansdóttir Stjörnunni hafnaði í 4. sæti á 19:55,51 mín.

Sannarlega glæsilegur árangur hjá þessum flottu hlaupurum.

Úrslit mótsins má sjá hér.

Úrslit úr kringlukasti má sjá hér.