Glæsilegur árangur á 91. Meistaramóti Íslands um helgina

91. Meistaramóti Íslands lauk í gær. Allra besta frjálsíþróttafólk landsins keppti á mótinu og náðist mjög góður árangur.

Fyrsta úrslitagrein mótsins á fyrri degi var sleggjukast kvenna. Þar vann Vigdís Jónsdóttir FH yfirburðasigur með 55,67 m kasti. Hilmar Örn Jónsson FH bar sigur úr býtum í sleggjukasti karla með 69,16 m kasti. Var það stigahæsta afrek mótsins í einstaklingsgrein en þessi árangur gefur 1027 stig.

Tugþrautarkappinn Ísak Óli Traustason UMSS sigraði 110 m grindarhlaup karla og náði sínum ársbesta árangri er hann hljóp á tímanum 15,26 sek (-0,5 m/s). Arna Stefanía Guðmundsdóttir FH sigraði í 100 m grindarhlaupi kvenna á tímanum 14,13 sek (-0,7 m/s).

Guðrún Heiða Bjarnadóttir HSK/Selfoss bar sigur úr býtum í langstökki kvenna. Hún stökk lengst 5,78 m (+0,9 m/s) og bætti um leið sinn persónulega árangur um 22 cm úti. Glæsilega gert hjá henni!

Karen Sif Ársælsdóttir Breiðabliki sigraði stangarstökk kvenna með 2,92 m stökki.

Mikil samkeppni var í hástökki karla. Bjarki Rúnar Kristinsson Breiðabliki sigraði með því að stökkva yfir 1,90 m, annar var Markús Ingi Hauksson ÍR með 1,87 m stökki.

Í 3000 m hindrunarhlaupi karla vann Arnar Pétursson ÍR yfirburðasigur er hann hljóp vegalengdina á tímanum 9:43,73 mínútum.

Í spjótkasti kvenna var Ólympíufarinn Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni mætt til leiks. Setti hún nýtt mótsmet í greininni með 56,75 m kasti.

Dagbjartur Daði Jónsson ÍR sigraði í spjótkasti karla. Hann lét sér nægja að taka eitt kast en það mældist 68,97 m og tryggði honum sigur í greininni.

Mikil spenna var fyrir úrslitunum í 100 m hlaupi og kvenna. Í 100 m hlaupi karla var búist við mikilli baráttu milli Ara Braga Kárasonar FH og Kolbeins Haðar Gunnarssonar FH. Komu þeir á sama tíma í mark, 10,89 sekúndu (-1,4 m/s), en fór svo að Kolbeini var dæmdur sigur.

Tiana Ósk Whitworth ÍR sigraði í 100 m hlaupi kvenna á tímanum 12,02 sek, Arna Stefanía Guðundsdóttir FH var önnur á persónulegri bætingu, 12,04 sek, og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR kom þriðja í mark á 12,30 sek.

Kristinn Torfason FH sigraði langstökk karla með 7,18 m stökki (+0,2 m/s).

Í 400 m karla var hart barist milli Kormáks Ara Hafliðasonar FH og Ívars Kristins Jasonarsonar ÍR. Fór svo að Kormákur Ari bar sigur úr býtum er hann hljóp á tímanum 48,87 sekúndum.

Vilhelmína Þór Óskarsdóttir Fjölnis sigraði í 400 m hlaupi kvenna á tímanum 59,25 sekúndum.

Keppni á laugardeginum endaði á 4×100 m boðhlaupum karla og kvenna. Í 4×100 m boðhlaupi karla kepptu 8 sveitir. Fór svo að Sveit FH sigraði á tímanum 41,15 sek og setti nýtt glæsilegt Íslandsmet og mótsmet. Í 4×100 m boðhlaupi kvenna sigraði Sveit ÍR á tímanum 46,42 sek og setti hún nýtt glæsilegt Íslandsmet og mótsmet í greininni.

Seinni keppnisdagur mótsins hófst á riðlakeppni í 200 m hlaupum karla og kvenna.

Fyrsta úrslitagrein dagsins var þrístökk kvenna. Þar sigraði Hilldigunnur Þórarinsdóttir ÍR með því að stökkva 11,62 m (-1,0 m/s) og jafna um leið sinn persónulega besta árangur.

Í þrístökki karla sigraði Kristinn Torfason FH með 14,40 m stökki (+3,0 m/s) og náði um leið sínum ársbesta árangri.

Í stangarstökki karla bar Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki sigur úr býtum með því að fara yfir 4,42 m. Í öðru sæti varð Leó Gunnar Víðisson ÍR með 4,32 m.

Sara Hlín Jóhannsdóttir Breiðabliki vann 400 m grindahlaup kvenna. Hljóp hún á tímanum 66,63 sekúndum og bætti um leið sinn persónulega árangur. Í 400 m grindahlaupi karla sigraði Ívar Kristinn Jasonarson ÍR á tímanum 53,30 sek.

Í kringlukasti kvenna bar Ásdís Hjálmsdóttir sigur úr býtum með 47,65 m kasti og Guðni Valur Guðnason ÍR sigraði kringlukast karla með yfirburðum er hann kastaði 58,11 m.

Óðinn Björn Þorsteinsson ÍR sigraði kúluvarp karla með 16,22 m kasti og Ásdís Hjálmsdóttir vann yfirburðasigur í kúluvarp kvenna með því að kasta kúlunni 14,88 m.

Flottir tímar náðust í 800 m hlaupum karla og kvenna.Í  Í kvennaflokki sigraði hin 15 ára gamla Iðunn Björg Arnaldsdóttir ÍR á tímanum 2:20,97 sek og er það bæting á hennar persónulega besta árangri um tæpar 2 sekúndur. Önnur var Ingibjörg Sigurðardóttir ÍR á tímanum 2:25,02á persónulegri bætingu og þriðja var Birta Karen Tryggvadóttir Fjölni á 2:28,41 mín. Í karlaflokki sigraði Kristinn Þór Kristinsson HSK/Selfoss á tímanum 1:54,68 mín. Hart var barist um næstu tvö sæti en fór svo að Trausti Þór Þorsteins Ármanni varð annar á tímanum 1:56,26 mín og Sæmundur Ólafsson ÍR þriðji á tímaum 1:56,27 mín.

Í 200 m hlaupi kvenna bar Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR sigur úr býtum á tímanum 24,68 sek (-1,2 m/s,) Tiana Ósk Whitworth ÍR var önnur og Andrea Torfadóttir FH þriðja.

Í 200 m hlaupi karla sigraði Ari Bragi Kárason FH á tímanum 21,79 sek (-2,6 m/s), Kormákur Ari Hafliðason FH var annar og Juan Ramon Borges Bosque Breiðbliki þriðji.

Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir UMSS og Kristín Lív Svabo Jónsdóttir ÍR börðust um gullið í hástökki kvenna. Stukku þær báðar yfir 1,72 m en fór svo að Þóranna Ósk vann gullið þar sem hún var með færri felld stökk. Kristín Lív bætti sinn persónulega árangur um 1 cm með stökkinu.

Andrea Kolbeinsdóttir ÍR sigraði í 3000 m hlaupi kvenna. Hljóp hún á tímanum 10:37,32 mín. Önnur var Helga Guðný Elíasdóttir Fjölni og hljóp hún á tímanum 10:47,02 mín sem er persónuleg bæting hjá henni um rúmar 4 sekúndur. Í þriðja sæti var Lára Björk Pétursdóttir HSK/Selfoss á 11:58,28 mín sem var að keppa í sínu fyrsta 3000 m hlaupi.

Í 5000 m hlaupi karla sigraði Arnar Pétursson ÍR á nýrri persónulegri bætingu, 15:27,91 mín. Var hann að bæta sig um tæpa 5 sekúndur. Í öðru sæti og einnig á persónulegri bætingu var Vilhjálmur Þór Svansson ÍR á 16:51,56 mín og þriðji var Andri Már Hannesson ÍR á 16:56,56 mín.

Mótinu lauk með 4×400 m boðhlaupum karla og kvenna.

Í kvennaflokki sigraði Sveit ÍR á tímanum 4:05,32 mín og bættu þær um leið Íslandsmetið í greininni í flokki stúlkna 17 ára og yngri. Sveit Breiðabliks var önnur og Sveit Fjölnis þriðja.

Í karlaflokki sigraði Sveit FH á tímanum 3:26,25 mín, Sveit Fjölnis var önnur og Sveit ÍR þriðja.

Hér má sjá öll úrslit mótsins í heild sinni.

Hér má sjá myndbönd sem Silfrið tók á mótinu.