Glæsilegt íslandsmet hjá Ásdísi í Lapinlahti, 59,80 metrar

Ásdís Hjálmsdóttir Ármanni setti í dag glæsilegt íslandsmet í spjótkasti á Savo Games í Lapinlahti í Finnlandi.
Ásdís kastaði 59,80 metra og bætti eigið íslandsmet um 2,31 metra, en það var 57,49 metrar, sett í Tallinn 21. júní sl. Ásdís sigraði örugglega á mótinu í dag, en þær sem voru í öðru og þriðja sæti áttu báðar betri árangru en hún fyrir mótið, en Kirsi Ahonen Finnlandi varð í öðru sæti með 56,37 metra (á best 58,70m í ár) og Jelena Jaakkola einnig frá Finnlandi varð í 3. sæti með 55,06 metra (á best 58,89m í ár).
 
Ásdís sem var í 61. sæti heimslistans í spjótkasti hækkaði sig um hvorki meira né minna en 28. sæti og er sem stendur í 33. sæti. Ásdís náði þessu langa kasti í 2. umferð, en hún kastaði tæpa 50 metra í fyrsta kasti, en gerði síðan síðustu fjögur köst sín ógild. Þetta er annar besti árangur í spjótkasti kvenna á Norðurlöndum á þessu ári, aðeins hin Finnska Mikaela Ingberg hefur kastað lengra í ár eða 61,59 metra.
Þetta er fjórða mótið í sumar, sem Ásdís kastar yfir B-lágmarki fyrir Ólympíuleikana. Næsta mót hjá Ásdísi er Meistaramót Íslands á Laugardalsvellinum um næstu helgi, sem verður líklega síðasta mótið sem hún tekur þátt í áður en hún fer til Peking.
 
Frjálsíþróttasambandið óskar Ásdísi, félagi hennar og þjálfara, Stefáni Jóhannssyni til hamingju þennan frábæra árangur.
 
 
 

FRÍ Author