Glæsilegt Stórmót ÍR haldið í 21. sinn

ÍR hélt sitt 21. Stórmót um síðustu helgi í Laugardalshöll. Um 800 keppendur, á aldrinum 5 til 53 ára frá 38 félögum, tók þátt, þar af fjöldi Færeyinga en það má segja að það sé ekkert Stórmót lengur án vina okkar frá Færeyjum. Þeir yngstu tóku þátt í þrautabrautinni sem sett er upp annarsvegar fyrir 8 ára og yngri og hins vegar fyrir 9-10 ára. Fyrir 11 ára og eldri er fjöldi keppnisgreina í boði fyrir bæði kynin allt frá 60m spretthlaupi til stangarstökks.

 

Þó svo að Stórmótið sé ekki eingöngu gert til þess að sigra og setja met þá er það stór hluti af þátttöku margra og kom það skýrt fram í frábærum árangri margra keppenda en nærri 730 bætingar litu dagsins ljós og hvorki fleiri né færri en 21 mótsmet. Það afrek sem stóð upp úr var án efa tími Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur ÍR í 200m hlaupi stúlkna, 24.28 sek, en hún setti Íslandsmet alveg upp í 22 ára flokkinn en hún keppir í flokki 16-17 ára. Þessi tími setur Guðbjörgu Jónu í 4. sæti á heimslista U18 stúlkna sem er enginn smá árangur í 200m hlaupi. Sá sem setti flest mótsmet var Sindri Freyr Seim Sigurðarson frá ungmennafélaginu Heklu en hann setti mótsmet í 200m, 60m grindahlaupi og langstökki í flokki pilta 14 ára. Þá féllu fjögur aldursflokkamet, Thelma Rós Hálfdánardóttir FH stökk 3,30m í stangarstökki 15 ára stúlkna, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir setti met  á tímanum 24,28 sek, Birna Kristín Krisjánsdóttur Breiðabliki setti met í 60m grindahlaupi 15 ára 9,05 sek, Erna Sóley Gunnarsdóttir Aftureldingu setti met í kúluvarpi 17 ára 15,23 m.