Gerd Kanter bætti heimsmet í kringlukasti innanhúss

Eistlenski kringlukastarinn, Gerd Kanter sem þjálfaður er af Vésteini Hafsteinssyni, bætti á sunnudaginn heimsmetið í kringluakasti innanhúss. Kanter kastaði kringlunni 69,51 metra í íþrótthöll í Växjö í Svíþjóð. Gamla metið átti Þjóðverjinn Wolfgang Schmidt. Það var 66,20 metrar var sett fyrir 29 árum.
 
Kanter var óheppinn að kasta ekki kringlunni yfir 70 metra á mótinu á sunnudag. Á æfingu á laugardaginn þeytti hann kringlunni 70,45 metra og hún sveif nærri 71 metra í upphitunarkasti skömmu fyrir mótið á sunnudag.
 
Kanter á þegar einnig besta árangur ársins í kringlukasti utanhúss, 69,70 metra. Þeim árangri náði hann á Vetrarkastmóti Frjálsíþróttasambands Evrópu á Kanaríeyjum á dögunum.
 
Hollendingurinn Erik Cadée varð annar í innanhússkeppninni í Växjö eftir harða keppni við Märt Israel, Eistlandi, sem einnig er lærisveinn Vésteins Hafsteinssonar. Cadée kastaði 60,37 metra en Israel fimm sentímetrum skemur.
 
Heimsmetið er einn áfanginn sem þeir Kanter og Vésteinn ná á þeim nærri níu árum sem þeir hafa unnið saman. Kanter hefur þegar unnið gullverðlaun á heims- og Evrópumeistaramóti, orðið ólympíumeistari og stigameistari Alþjóða frjálsíþróttasambandsins í sinni grein.
 
Féttin er af mbl.is

FRÍ Author