Fyrri dagur MÍ

Fyrri degi Meistaramóts Íslands er lokið þar sem ellefu greinar fóru fram. Mikil spenna var í mörgum greinum og oft mátti ekki miklu muna milli fyrsta og annars sætis. Einnig voru margir að bæta sinn persónulega árangur. Í stigastöðu félagsliða leiðir FH með sex sigra og 26 stig, í öðru sæti er ÍR með þrjá sigra og 17 stig og í þriðja sæti er Breiðablik með tvo sigra og 10 stig.

Íslandsmeistari aðra helgina í röð

María Rún

Fyrsti Íslandsmeistari dagsins var María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH. Hún sigraði í hástökki með stökk upp á 1,70 metra. Í öðru sæti varð Kristín Lív Svabo Jónsdóttir úr ÍR með stökk upp á 1,67 metra og í þriðja sæti varð Helga Þóra Sigurjónsdóttir úr Fjölni þegar hún stökk 1,64 metra. María Rún er sterk í mörgum greinum og sýndi hún það síðustu helgi þegar hún varð Íslandsmeistari í fimmtarþraut. Á morgun keppir hún í 60 metra grindarhlaupi, langstökki og kúluvarpi. Kristín Lív var að keppa í fyrsta skipti síðan sumarið 2017 vegna meiðsla. Hún á best 1,70 metra og var því alveg við sinn besta árangur.

1500 metrar

Sæmundur Ólafsson

Í 1500 metra hlaupi karla sigraði Sæmundur Ólafsson úr ÍR á tímanum 4:06,70 mínútum. Rétt rúmri sekúndu á eftir honum kom Bjartmar Örnuson, KFA, á tímanum 4:07,96 mínútum. Í kvennaflokki urðu tveir FH-ingar í fyrsta og öðru sæti. María Birkisdóttir sigraði á tímanum 4:49,73 og Sólrún Soffía Arnarsdóttir varð önnur á tímanum 4:52,86 mínútum sem er persónulegt met.

Irma aftur yfir 12 metra

Hildigunnur Þórarinsdóttir og Irma Gunnarsdóttir

Irma Gunnarsdóttir, Breiðabliki, varð Íslandsmeistari í þrístökki þegar hún bætti sinn besta árangur og stökk 12,03 metra. Irma hafði einu sinni áður stokkið yfir 12 metra. Það var fyrr á tímabilinu þegar hún stökk 12,00 metra á MÍ 15-22 ára. Í öðru sæti varð Hildigunnur Þórarinsdóttir úr ÍR með 11,71 metra stökk sem er bæting hjá henni um þrjá sentimetra. Utanhúss á hún hins vegar 11,90 metra. Þriðja varð svo Agla María Kristjánsdóttir, Breiðabliki með 11,50 metra stökk.

Kristinn Torfason, FH, sigraði í karlaflokki þegar hann stökk 14,30 metra, í öðru sæti varð Bjarki Rúnar Kristinsson, Breiðabliki með stökk upp á 14,02 metra og í þriðja sæti varð Viktor Logi Pétursson, Ármanni með 13,05 metra stökk.

Guðbjörg Jóna og Juan Ramon Íslandsmeistarar í 60m

Guðbjörg Jóna

60 metra hlaup karla var hnífjafnt þar sem Juan Ramon Borges, Breiðabliki, og Ísak Óli Traustason, UMSS, komu báðir á mark á 7,07 sekúndum. Juan Ramon sigraði hinsvegar á þúsundustuhlutum. Ísak Óli var að bæta sinn besta árangur frá því um síðustu helgi þegar hann hljóp á 7,10 sekúndum. Þriðji í mark var Guðmundur Ágúst Thoroddsen, Aftureldingu, á 7,12 sekúndum.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, sigraði í kvennaflokki á 7,54 sekúndum. Hún var alveg við sinn besta árangur sem er 7,51 sekúnda frá því á Reykjavík International. Í öðru sæti varð Hafdís Sigurðardóttir, UFA, á 7,67 sekúndum. Í þriðja sæti varð Andrea Torfadóttir, FH sem jafnaði sinn besta árangur þegar hún hljóp á 7,69 sekúndum. Andrea æfir um þessar mundir í Svíþjóð en kom til landsins fyrir Meistaramótið.

Tvíburar með sigur í 400m

Hinrik Snær Steinsson, FH, sem hefur verið að bæta sig vel í vetur í 60m, 200m og 400m hlaupi bætti við enn einni bætingunni þegar hann stórbætti sig í 400 metra hlaupi. Fyrir átti hann 50,05 sekúndur frá því á RIG í janúar en í dag hljóp hann á 48,87 sekúndum. Hann var því að bæta sig um rúma sekúndu og varð um leið Íslandsmeistari í greininni. Annar á tímanum 48,97 sekúndum varð Kormákur Ari Hafliðason einnig úr FH. Kormákur á best 48,55 sekúndur og hefur hann einnig verið að bæta sig vel í vetur. Þeir æfa saman hjá Ragnheiði Ólafsdóttur sem er klárlega að gera vel með þá báða.

Guðbjörg Jóna, Þórdís Eva og Katla Rut

Þórdís Eva Steinsdóttir, FH, sigraði svo í kvennaflokki á tímanum 56,22 sekúndum. Hún er einnig að æfa hjá Ragnheiði með bróður sínum Hinriki Snæ og Kormáki Ara. Önnur varð Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR á 56,38 sekúndum og í þriðja sæti varð Vilhelmína Þór Óskarsdóttir á 57,86 sekúndum. Guðbjörg Jóna og Þórdís Eva munu svo mætast aftur á morgun í 200 metra hlaupi.

Vinir í verðlaunasætum í kúluvarpi

Tómas Gunnar

Í kúluvarpi karla skipuðu þrír FH-ingar efstu þrjú sætin. Tómas Gunnar Gunnarsson Smith sigraði með 14,34 metra kast, Valdimar Hjalti Erlendsson bætti sig og kastaði 14,32 metra og Mímir Sigurðsson kastaði 13,25 metra. Aðalgrein Valdimars og Mímis er kringlukast en eru einnig góðir kúluvarparar.

Mark Wesley Johnson, ÍR, sigraði í stangarstökki þegar hann stökk 4,50 metra. Mark hefur ekki keppt síðan síðasta sumar en hefur engu gleymt og sigraði örugglega. Í öðru sæti varð Guðmundur Karl Úlfarsson, Ármanni með 4,30 metra stökk og í þriðja sæti varð Þorvaldur Tumi Baldursson, ÍR, sem stökk 4,10 metra og var að jafna sinn besta árangur.

Hér má sjá öll úrslit dagsins. Keppni hefst aftur á morgun klukkan 10 með forkeppni í langstökki.