Frjálsíþróttaveisla um helgina

Skemmtileg helgi framundan í frjálsum íþróttum. Meistaramót Íslands 15-22 ára hefst á laugardag á Selfossi. Tveir Íslendingar keppa á Bauhaus Junioren Gala í Mannheim og Hlynur hleypur 5000m í Belgíu.

MÍ 15-22 ára

Meistaramót Íslands 15-22 ára fer fram á Selfossvelli um helgina og eru um 160 keppendur skráðir. Það voru ÍR-ingar sem unnu heildarstigakeppnina í fyrra en ÍR-ingar hafa unnið sautján ár í röð. 

Íslandsmethafinn í kúluvarpi kvenna, Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR, er skráð til leiks í bæði kúluvarpi og kringlukasti í 20-22 ára flokki. Utanhúss met hennar er 16,77 metrar og er þetta mót góð upphitun fyrir EM U23 sem fer fram í næstu viku. 

FH-ingurinn Mímir Sigurðsson keppir í þremur kastgreinum um helgina en hans sterkasta grein er kringlukast. Hann er búinn að kasta lengst í ár 60,32 metra í ár sem er, samkvæmt afrekaskrá FRÍ, sjöunda lengsta kast frá upphafi í greininni. Hann er sömuleiðis að fara á EM U23 í næstu viku.

Eva María Baldursdóttir keppir í hástökki í flokki 18-19 ára og er hún búin að stökkva 1,78 hæst í ár. Eva er nú þegar komin með lágmark á EM U20 sem fer fram eftir tvær vikur og ætlar að freista þess að ná lágmarki á HM U20 sem er 1,82. 

Glódís Edda Þuríðardóttir er skráð í átta greinar um helgina. Hún keppir meðal annars í 100 metra grindahlaupi en hún náði lágmarki á HM U20 í greininni á Evrópubikarnum á tímanum 14,03 sekúndum. Hún ætlar að freista þess að ná lágmarki á EM U20 sem er 13,97 sekúndur. 

Hægt er að fylgjast með úrslitum frá mótinu hér.

Bauhaus Junioren-Galan

Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Birna Kristín Kristjánsdóttir keppa á Bauhaus Junioren Gala um helgina. Elísabet Rut kastar sleggju á laugardaginn en hún á Íslandsmetið í greininni, 64,39 metrar. Birna Kristín keppir í langstökki á sunnudeginum og er hún búin að stökkva 6,08 metra lengst í ár. Elísabet er komin með lágmark á EM U20 sem fer fram eftir tvær vikur og ætlar Birna að freista þess að ná lágmarkinu í langstökki sem er 6,10 metrar. 

Hástökkvararnir Eva María Baldursdóttir og Kristján Viggó Sigfinnsson náðu einnig lágmarki á mótið en gáfu ekki kost á sér.

Streymi

Bein úrslit

Hlynur í 5.000m í Belgíu

Hlynur Andrésson keppir í 5.000 metra hlaupi á KBC Nacht í Heusden-Zolder, Belgíu á laugardag. Keppni hefst klukkan 17:00 á íslenskum tíma.

Heimasíða mótsins