Reykjavík International Games í frjálsíþróttum fer fram á morgun, sunnudaginn 6. febrúar í Laugardalshöll. Mótið hefst klukkan 12:50 en útsendingu á RÚV hefst klukkan 16:00. Við hvetjum þó alla til þess að mæta á staðinn og fá stemninguna beint í æð. Miðasala er á rig.is.
Kanónur í kúluvarpi
Það má búast við hörku keppni í blönduðu kúluvarpi þar sem karlar og konur keppa saman. Hollendingurinn Sven Poelmann er Hollenskur meistari bæði innan- og utanhúss í greininni og á best 20,22 metra. Kanónurnar Chase Ealey frá Bandaríkjunum og Sophie Mckinna frá Bretlandi eru einnig á meðal keppenda en þær eru báðar í topp tuttugu á heimslista í kúluvarpi. Ealey á best 19,68 metra og hefur hún þrisvar sinnum orðið Bandarískur meistari í greininni. McKinna á best 18,61 metra. Kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason verður einnig á meðal keppenda og á hann best 18,81 og er búinn að kasta 18.62 lengst í ár.
Spennandi sprettir í kvennaflokki
Það verður spennandi að fylgjast með 60 metra hlaupi kvenna þar sem tvær hröðustu konur frá upphafi í greinninni keppa á móti sterkum erlendum keppendum. Íslandsmethafinn í greininni, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir verður á brautinni ásamt æfingafélaga sínum, Tiönu Ósk Whitworth. Íslandsmet Guðbjargar í greininni er 7,43 sek. sem hún bætti í miðjan janúar og hljóp Tiana þá á 7,45 sem er einnig undir fyrra metinu. Þær Naomi Sedney frá Hollandi og Milja Thureson frá Finnlandi verða einnig meðal keppenda í 60 metra hlaupi. Naomi á best 7,22 og hefur unnið til gull- og silfurverðlauna á Evrópumeistaramóti í 4x100m boðhlaupi. Milja á best 7,42 og mun hún einnig taka þátt í 200 og 400m hlaupi.


Í 200 metra hlaupi er það Guðbjörg sem á besta tímann en hún á best 23,98 sek. innanhúss. Milja á best 24,02 sek. innanhúss og Tiana 24,08 sek. innanhúss. Íslandsmetið í greininni er 23,79 sek. sem Silja Úlfarsdóttir setti árið 2004 en Guðbjörg á sjálf Íslandsmetið utanhúss, 23,45 sek. Það má því búast við spennandi keppni í lokagrein mótsins.


Skemmtilegt einvígi
Í hástökki karla verður spennandi einvígi milli Kristjáns Viggó Sigfinnssonar og Matias Mustonen frá Finnlandi. Kristján á best 2,18 m og hefur stokkið hæst 2,15 metra í ár og Matias á best 2,17 metra. Kristján ætlar að freista þess að ná 2,22m. sem er aldursflokkametið í hans flokki. Hann er nú þegar kominn með lágmark á HM U20 sem fram fer í Cali í Colombiu í byrjun ágúst.


Efnilegir keppendur í U16 ára
Í U16 ára piltum er Arnar Logi Brynjarsson skráður til leiks í bæði 60 metra og 600 metra hlaupi. Hann setti nýverið aldusflokkamet í 60 metra hlaupi er hann hljóp á 7,23 sek. sem er tíundi besti tími karla í ár.
Í stúlkna hlaupinu er það yngsta stúlkan sem á hraðasta tímann. Freyja Nótt Andradóttir, sem er aðeins tólf ára gömul, setti einnig nýverið Íslandsmet í bæði 12 og 13 ára flokki í 60 metra hlaupi er hún hljóp á tímanum 8,09 sek. Það er jafnframt sjötti besti tími kvenna í ár.
Margir aðrir stórefnilegir keppendur eru skráð til leiks og er framtíðin björt í frjálsum íþróttum.