Frjálsíþróttamót RIG er á morgun

RIG er skilgreint sem EAA Permit mót í fjórða sinn, með gæðavottun frá Frjálsíþróttasambandi Evrópu (EAA). Það er í samræmi við stefnu mótshaldara, sem í þetta sinn er Frjálsíþróttasamband Íslands. Markmiðið er að bæta mótið og gera það öflugra með hverju árinu. Mótið er haldið í á vegum Íþróttabandalags Reykjavíkur í samstarfi við FRÍ og Reykjavíkurborg.
 
Alls eru 111 keppendur skráðir til leiks, þar af eru erlendir keppendur 13.   Fyrst má nefna breskan Ólympíumeistara í 4×100 m boðhlaupi karla frá því í Aþenu 2004, Mark Lewis-Francis. Hans besti árangur í 60 m hlaupi er 6,51 sek. og er frá árinu 2001. Auk Ólympíumeistaratitils á Mark brons frá HM innanhúss 2001 og á HM innanhúss 2003 hafnaði hann í 4. sæti. Hann var mjög efnilegur unglingur vann hann bæði til gullverðlauna á HM 17 ára og yngri árið 1999 og síðan aftur ári síðar á HM 19 ára og yngri. Í 60 m hlaupi mætir einnig annar Breti, Daniel Gardiner að nafni. Daniel er fyrrum tugþrautarkappi og hafnaði hann í 5. sæti á EM 19 ára og yngri árið 2009. Daniel er með svarta beltið í judo og sem unglingur var hann talinn efnilegur sundmaður og fótboltamaður en keppti hann í hvoru tveggja. Hann hefur nú sett fókusinn á langstökk og hefur hann lengst stokkið 7,58 m á síðastliðnu ári. Daniel er einnig snöggur á brautinni og hleypur gjarnan 60 m hlaup líkt og margir aðrir langstökkvarar. Hans besti árangur í 60 m hlaupi er 6,87 sek. Köppunum mætir meðal annarra Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA. Kolbeinn á best 7,03 sek. í greininni frá því á Meistaramóti 15-22 ára sem fór fram síðastliðna helgi. Kolbeinn er því í feiknaformi og líklegur til frekari bætinga. Athygli vakti að Jóhann Björn Sigurbjörnsson úr UMSS veitti Kolbeini harða keppni á Meistaramótinu og bætti sig tölvuert í greininni. Jóhann hljóp þá á 7,05 sek.
 
Þær Rose-Anne Galligan frá Írlandi og Aline Krebs frá Þýskalandi munu mæta Anítu Hinriksdóttur, ÍR, í 800 m hlaupi. Síðastliðið sumar bætti Rose-Anne 19 ára gamalt met Soniu O’Sullivan í 800 m hlaupi þegar hún kom í mark á tímanum 2:00,58 s. Besti tími Anítu er 2:00,47 mín. Þýska stúlkan Aline Krebs mun veita þeim harða keppni en hennar besti tími er 2:03,50 mín. Áhugavert er, að möguleiki er á að sett verði bæði nýtt írskt og íslenskt innanhússmet í greininni. Innanhúss hefur Aníta hlaupið hraðast á 2:03,27 mín., sem er Íslandsmet og Rose-Anne hefur hlaupið hraðast 2:02,84 mín. Núverandi met Íra innanhúss á Ciara Everard 2:02,54 mín.
 
Langstökkskeppni karla verður gríðarlega spennandi því þar mætast þrír sterkir langstökkvarar sem allir voru á svipuðu róli síðastliðið ár. Kristinn Torfason, FH, mun freista þess að sigra RIG þriðja árið í röð en andstæðingar hans, hinn áðurnefndi Daniel Gardiner og Daninn Morten Jensen munu veita honum harða keppni. Kristinn hefur lengst stokkið 7,77 m innanhúss og fór hann 7,63 m lengst á síðasta ári. Daniel á best 7,58 frá síðastliðnu sumri en Morten hefur lengst stokkið allra, 8,25 m. Það gerði hann árið 2005. Á síðasta ári stökk hann lengst 7,64 m eða 1 cm lengra en Kristinn. Morten er bronsverðlaunahafi frá því EM innanhúss 2011.
 
Langstökk kvenna verður ekkert síður spennandi en langstökk karla. Til leiks mæta meðal annarra Sosthene Moguenara frá Þýskalandi, Amy Harris frá Bretlandi og Íslandsmethafinn utanhúss, Hafdís Sigurðardóttir úr UFA. Sosthene var í 2. sæti á heimslista 2013 en hún stökk lengst 7,04 m. Sosthene vann til bronsverðaluna á EM 19 ára og yngri 2011, hún var meðlimur í þýska liðinu á Ólympíuleikunum í London 2012 og var í úrslitum á HM í fyrra. Amy hefur lengst stokkið 6,47 m það gerði hún innanhúss árið 2007. Í fyrra stökk hún lengst 6,42 m. Amy hafnaði í 2. sæti á EM 19 ára og yngri 2005 og varð í 6. sæti á Heimsleikum stúdenta 2011. Hafdís setti snýtt Íslandsmet síðastliðið sumar þegar hún stökk 6,36 m. Innanhúss hefur Hafdís lengst stokkið 6,17 m en Íslandsmetið er enn í eigu Sunnu Gestsdóttur, 6,28 m frá árinu 2003.
 
Kári Steinn Karlsson mun gera atlögu að nýju Íslandsmeti í 3000 m hlaupi karla en núverandi met, 8:10,94 s, setti hann sjálfur árið 2007. Einar Daði Lárusson, tugþrautarmaður úr ÍR, er mættur aftur til leiks eftir árs hlé vegna meiðsla í hásin. Árið 2012 var hann með 31. besta árangurinn í Evrópu í tugþraut og hafnaði hann 13. sæti á Evrópumeistaramótinu utanhúss það ár. Sjöþrautarkonurnar Sveinbjörg Zophoníasdóttir, FH, og Arna Stefanía Guðmundsdóttir, ÍR, hlaupa 60 m grindahlaup, stökkva langstökk og kasta kúlunni. Arna Stefanía hafnaði í 6. sæti í sjöþraut á EM 19 ára og yngri síðastliðið sumar og Sveinbjörg í því 14. á EM 20 – 22 ára.
 
Hörð barátta verður milli íslensku kvennanna í 60 m hlaupinu. Björg Gunnarsdóttir, ÍR, og Hafdís Sigurðardóttir úr UFA hafa báðar bætt sinn besta árangur á árinu og eru því í feikna formi. Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir úr ÍR hefur líka verið að hlaupa á mjög góðum tímum það sem af er tímabils. Besti tími Bjargar er 7,86 s, Hrafnhild á best 7,69 sek. frá árinu 2012 og hljóp á 7,85 sek. fyrir stuttu og Hafdís hljóp á 7,65 sek. í byrjun árs. Íslandsmetið er í eigu Geirlaugar B. Gerilaugsdóttur og er það frá árinu 1996. Langstökkvarinn, Amy Harris frá Bretlandi, mun spreyta sig í 60 m hlaupinu en hennar besti árangur er síðan árið 2007 og er 7,59 sek. Hún er ekki með neinn skráðan árangur síðan þá og er því óskrifað blað eins og stendur. Ljóst er þó að hún muni veita íslensku konunum harða keppni.
 
Frjálsíþróttamót RIG er á morgun í Laugardalshöll og hefst keppni kl 13:15.
 
Meðfylgjandi mynd er tekin á blaðamannafundi sem haldinn var á hádegi í dag laugardag á veitingastaðnum SAFFRAN í Hafnarfirði.

FRÍ Author