Frjálsíþróttahluta RIG 2013 lokið

Sölvi Guðmundsson var fyrsti sigurvegari dagsins á bætingu í 60m grind, 8,78s. Í grindahlaupi kvenna sem var hluti af þríþrautarkeppni kvenna sigraði Jenna Pletch frá Þýskalandi en María Rún Gunnlaugsdóttir var fyrst Íslendinga á 9,05s.

Hörkuspenna var í langstökki kvenna en þar var hörð barátta á milli Þorsteins Ingvarssonar og Kristins Torfasonar eins og svo oft áður. Kristinn hafði betur í þetta skiptið með glæsilegu stökki upp á 7,63m en Þorsteinn stökk 5sm styttra.

Frábær árangur náðist í 600m hlaupi 15 ára og yngri. Í stúlknahlaupinu sigraði Þórdís Eva Steinsdóttir á 1:38,15 þegar hún bætti eigið stúlknamet í flokki 13 ára og yngri, eitt af fjölmörgum metum sem hún hefur sett undanfarið. Hjá strákunum var barátta á milli blikana Alfons Sampsted og Reynirs Zoega en Alfons varð hlutskarpari á frábærum tíma, 1:29,90.

Í hástökki kvenna sigraði Kristín Lív Svabo Jóndóttir úr ÍR með stökki yfir 1,58m og hjá körlunum sigraði Sölvi Guðmundsson sína aðra grein á mótinu með stökki upp á 1,90m.

Mikið fjör var í 60m hlaupunum en það voru þau Rebakka Haase og Roy Schmidt frá Þýskalandi sem voru fljótust. Fyrstu Íslendingar í mark voru Hafdís Sigurðardóttir, 7,75s og Kolbeinn Höður, 7,11s en þau hlaupa bæði fyrir UFA og voru bæði að bæta sinn besta árangur. Einnig fór fram heldur skraulegra 60m hlaup þar sem nokkrir þjóðþekktir einstaklingar spreyttu sig á brautinni. Það var handboltakappinn Sigurður Eggertsson sem sigraði hlaupið á 7,69s næstur á undan Jóni Jónssyni söngvara og knattspyrnukappa með meiru og þriðji var liðsfélagi Jóns, Atli Guðnason. Steindi náði ekki að blanda sér í toppbaráttuna í þetta skiptið þrátt fyrir góða takta en frjálsíþróttaferli Erps Eyvindarsonar lauk áður en hann hófst þar sem hann mætti ekki á svæðið.

UFA menn gerðu góða hluti í fleiri greinum en í 60m hlaupi því Bjarki Gíslason hélt uppteknum hætti frá Reykjavíkurmeistaramótinu og bætti sig enn frekar í stangarstökki. Hann sigraði greinina örugglega með stökki upp á 5,10m sem er þriðji besti innanhúsárangur Íslendinga frá upphafi.

Í 800m hlaupunum voru keppendur heldur betur klárir í slaginn. Allir Íslendingarnir bættu sig en það var þó ekki nóg hjá strákunum til að sigra þjóðverjann Kevin Stadler sem hljóp gífurlega vel og sigraði á 1:50,67. Í kvennahlaupinu leit árangur dagsins ljós þegar Aníta Hinriksdóttir sýndi gríðarlega styrk sem hljóp keppnislaust og kom í mark á nýju Íslandsmeti, 2:04,79 og náði jafnframt lágmarki á Evrópumeistaramótið innanhús. Aníta bætti metið um rúma sekúndu en hún átti sjálf metið.

Í kúluvarpi sigraði ÍR-ingurinn Heiðar Geirmundsson eftir spennandi keppni við Ásgeir Bjarnason. Heiðar kastaði kúlunni 16,22m, 6sm lengra en Ásgeir. Í kúluvarpi kvenna sem jafnframt var liður í þríþrautarkeppninni sigraði Sveinbjörg Zophoníusardóttir örugglega með kasti upp á 12,80m og styrkti stöðu sína í þríþrautinni. Sveinbjörg varð svo önnur í langstökki en það tryggði henni samanlagðan sigur í þríþrautarkeppninni. Hafdís Sigurðardóttir sigraði spennandi langstökkskeppni með stökki upp á 5,94m, 2sm á undan Sveinbjörgu og 3sm á undan Maríu Rún.

Kolbeinn Höður Gunnarsson úr UFA bætti sig aftur í 400m hlaupi þegar hann sigraði á 48,32s, Ívar Kristinn Jasonarson hljóp einni mjög vel en þeir félagarni skyldu þjóðverjann Martin Grothkopp eftir en hann var skráður með langbesta tímann fyrir hlaupið.  Stefanía Valdimarsdóttir úr Breiðablik sigraði svo 400m hlaup kvenna örugglega á 57,16s.

Í 3000m hlaupi var annar tvöfaldur UFA sigur en Þorbergur Ingi Jónsson hóf feril sinn fyrir UFA með látum með góðum sigri á tímanum 8:30,97 og Rannveig Oddsdóttir vann kvennahlaupið af miklu öryggi á persónulega meti, 10:25,03. Það var svo sveit ÍR sem sigraði í 4x200m boðhlaupi eftir góðan endasprett hjá Ívari Kristni Jasonarsyni.

Heildarúrslit mótsins má finna hér.

 

Fréttin er tekin af fréttavef silfursins

Myndina af Anítu tók Gunnlaugur Júlíusson

FRÍ Author