Frjálsíþróttaárið 2019

Svitadroparnir falla niður einn af öðrum, húðin klístruð og andardrátturinn ör. Íslenski hópurinn stendur þétt saman en að honum beinast augu úr öllum áttum. Augnaráðin eru ógnandi en í þeim má greina ótta. Ótta við það að hafa orðið undir í baráttunni. Í íslenska hópnum kraumar hins vegar spenna og eftirvænting. En samt sem áður óvissa. Sigur eða tap. Gleði eða sorg. Ísland eða Serbía.

Um það bil fimmtán mínútum fyrir þetta spennuþrungna augnablik hafði síðasta greinin á Evrópubikar farið fram. Íslenska liðið hafði fyrir mótið veika von um að sigra á mótinu og komast upp um deild. Vonin var veik en samt sem áður möguleg. Serbneska liðið var mun sterkara en það íslenska á blaði en þegar komið er út á brautina skiptir það engu máli. Hver og einn liðsmaður íslenska liðsins hafði gefið allt sem hann átti. Það hafði svo sannarlega skilað sér því fyrir síðustu greinina var serbneska liðið aðeins örfáum stigum á undan því íslenska.

Síðasta grein mótsins var 4×400 metra boðhlaup karla. Á síðasta sprettinum koma fjórir hlauparar hnífjafnir út úr beygjunni og inn á beina kaflann. Þar á meðal liðsmaður íslenska liðsins og þess serbneska. Til þess að sigra á mótinu var ekki nóg fyrir íslenska liðið að koma fyrst í mark í þessu hlaupi. Íslenska liðið þurfti að enda nokkrum sætum fyrir ofan það serbneska. Serbía átti góðan endasprett og kom fyrst í mark. Serbneskur sigur. Eða hvað? Endaspretturinn hafði ekki beint verið löglegur. Serbneski keppandinn hafði troðist fram úr. Dómararnir ákváðu að skoða atvikið og eftir langa og spennuþrungna bið var niðurstaðan ljós. Ísland fer með sigur á hólmi í 3. deild Evrópubikarkeppni landsliða í frjálsíþróttum 2019.

Sigur Íslands á Evrópubikar var einn af mörgum hápunktum ársins hjá íslensku frjálsíþróttafólki. Tíu Íslandsmet voru sett á árinu og þrír bestu árangrar frá upphafi. Ísland átti fulltrúa á öllum stórmótum ársins bæði í fullorðinsflokki og hjá unglingum. Íslenskt brons í kúluvarpi á EM U20 og á Evrópbikar í fjölþrautum auk fjöldi annarra alþjóðlegra verðlauna. Tíu íslenskir frjálsíþróttamenn eru í topp 50 í Evrópu í fullorðinsflokki og sex í topp 10 í unglingaflokki.

Reykjavík International Games

Fyrsta alþjóðlega mót ársins var Reykjavík International Games sem fram fór í Laugardalshöllinni í byrjun febrúar. Þar mættu okkar allra besta íþróttafólk sterkum erlendum keppendum. Haustið 2018 var settur saman íslenskur boðhlaupshópur sem æft hefur markvisst saman og skilaði það sér í góðum árangri á mótinu. Íslenska sveitin mætti sveit frá Bandaríkjunum í 4×200 metra boðhlaupi. Kvennamegin bar íslenska sveitin sigur úr býtum en hjá körlunum sigraði hin bandaríska. Báðar íslensku sveitirnar náðu hins vegar besta árangri frá upphafi. Karlasveitin samanstóð af Ara Braga Kárasyni, Hinriki Snæ Steinssyni, Kormáki Ara Hafliðasyni og Ívari Kristni Jasonarsyni og komu þeir í mark á 1:27,13 mínútum. Kvennasveitina skipuðu Glódís Edda Þuríðardóttir, Melkorka Rán Hafliðadóttir, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir og var tími þeirra 1:37,72 mínútur. 

Hlynur Andrésson sigraði í 1500 metra hlaupi á mótinu á tímanum 3:45,97 mínútum. Það var persónulegt met hjá Hlyni og aðeins rétt frá Íslandsmeti Jóns Diðrikssonar frá árinu 1980 sem er 3:45,6 mínútur. Það met var mælt með handtímatöku og er því tími Hlyns sá besti með rafrænni klukku.

Hlynur Andrésson á RIG 2019

Tíu Íslandsmet

Fyrsta Íslandsmet ársins setti Hlynur Andrésson í 3.000 metra hlaupi innanhúss. Hann bætti fyrst 12 ára gamalt Íslandsmet Kára Steins Karlsonar í greininni en bætti svo aftur eigið Íslandsmet viku seinna. Metið setti hann út í Noregi þegar hann hljóp á  7:59,11 mínútum og náði um leið lágmarki á EM sem fram fór í Glasgow í byrjun mars.

Á bikarkeppni FRÍ innanhúss jafnaði Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir Íslandsmetið í 60 metra hlaupi. Metið hafði Tiana Ósk Whitworth sett í janúar 2018. Þær deila því Íslandsmetinu sem er 7,47 sekúndur.

Guðbjörg Jóna og Tiana Ósk

Í mars varð Hlynur Andrésson fyrsti Íslendingurinn til þess að hlaupa 10 km í götuhlaupi undir 30 mínútum og bætti um leið Íslandsmet Jón Diðrikssonar frá árinu 1983. Hlynur kom í mark á tímanum 29:49 mínútum í Parrelloop hlaupinu í Hollandi. Hlynur á einnig Íslandsmetið í 10.000 m hlaupi á braut.

Í Bandaríkjunum gerði Hilmar Örn Jónsson frábæra hluti. Hann hóf tímabilið sitt í byrjun apríl með því að kasta lengra á sínu fyrsta móti en hann gerði allt árið 2018. Í lok apríl bætti hann svo ellefu ára gamalt Íslandsmet Bergs Inga Péturssonar í sleggjukasti með því að kasta 75,26 metra. Hann fylgdi svo eftir þessari frábærri byrjun með því að verða svæðismeistari fjórða árið í röð og næla sér í brons á bandaríska háskólameistaramótinu. 

Hilmar Örn Jónsson

Elísabet Rut Rúnarsdóttir setti nýtt Íslandsmet í sleggjukasti í maí þegar hún kastaði 62,16 metra á kastmóti UMSB á Skallagrímsvelli í Borgarnesi. Elísabet Rut er aðeins 16 ára gömul og er því ansi líklegt að hún muni bæta metið aftur á næstu árum. Fyrrum Íslandsmethafinn er Vigdís Jónsdóttir sem einnig er ung að árum og enn að keppa og því verður gaman að fylgjast með þeim tveimur á næstu árum.

Á Meistaramóti Íslands 15-22 ára sem fram fór á Selfossi í júní bætti Guðbjörg Jóna Bjarna­dótt­ir eigið Íslands­met í 200 metra hlaupi. Guðbjörg kom í mark á tímanum 23,45 sekúndum en fyrra met hennar í grein­inni var 23,47 sek­únd­ur sem hún setti á Ólympíuleikum ungmenna í Argentínu síðasta haust. Hér má sjá myndband af hlaupinu.

29. júní 2019 er dagur sem minnst verður í frjálsíþróttasögunni um ókomna tíð. Þá var Íslandsmetið í 100 metra hlaupi kvenna bætt með tveggja tíma millibili eftir að hafa staðið í 15 ár. Tiana Ósk Whitworth hljóp á 11,57 sekúndum í undanrásunum á sterku unglingamóti út í Þýskalandi. Í sama hlaupi hljóp Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á 11,62 sekúndum sem var líka undir gamla Íslandsmetinu sem Sunna Gestsdóttir átti og var 11,63 sekúndur. Í úrslitahlaupinu kom Tiana aftur í mark á 11,57 sekúndum en Guðbjörg á 11,56 sekúndum og hlupu þær því báðar samtals fjórum sinnum undir gamla metinu á einum degi. Hér má sjá umfjöllun RÚV um þetta magnaða afrek. 

Þriðja Íslandsmet Hlyns Andréssonar á árinu var í 5.000 metra hlaupi og var hann að bæta metið í þriðja skiptið. Metið setti hann út í Belgíu þegar hann hljóp á 13:57,89 mínútum. Hlynur bætti metið fyrst árið 2017 en þá hafði metið staðið frá því árið 2010 eða frá því að Kári Steinn Karlsson hljóp á 14:01,99 mínútu.

Ásdís Hjálmsdóttir kastaði 16,53 metra í kúluvarpi sem er bæting á 27 ára gömlu Íslandsmeti í greininni. Fyrra metið var 16,33 metrar sem Guðbjörg Hanna Gylfadóttir setti í Bandaríkjunum árið 1992. Ásdís var því að bæta metið um 20 sentimetra. Fyrir átti Ásdís best 16,08 metra frá árinu 2016 og var hún í þriðja sæti afrekalistans.
Ásdís setti metið í fyrstu grein í kastþraut út í Svíþjóð þar sem hún er búsett. Ásdís á einnig Íslandsmetið innanhúss en það er 15,96 metra frá árinu 2017. Ásdís er þekktust fyrir að vera spjótkastari en þar á hún einnig Íslandsmetið og hefur keppt í þeirri grein á þrennum Ólympíuleikum.

Ásdís Hjálmsdóttir

Íslendingar á stórmótum

Á árinu fóru fram tvö stórmót í fullorðinsflokki. Evrópumeistaramótið innanhúss og Heimsmeistaramótið utanhúss. HM sem fram fór í Katar í ár er klárlega stærsta mótið sem frjálsíþróttafólk getur keppt á á eftir Ólympíuleikunum. Þar dreymir alla um að fá að keppa en aðeins þeir allra bestu komast þangað. Á mótinu í ár áttu Íslendingar einn fulltrúa, Guðna Val Guðnason sem keppti í kringlukasti. Í undankeppninni fékk Guðni Valur þrjú köst og gerði tvö þeirra ógild. Eina gilda kastið hans kom í annarri tilraun og var það 53,91 metri. Það dugði ekki til þess að komast áfram í úrslitin og endaði Guðni sextándi í sínum kasthóp.

Guðni Valur

Á EM innanhúss kepptu Hafdís Sigurðardóttir í langstökki og Hlynur Andrésson í 3.000 metra hlaupi. Hlynur hljóp á 8:06,97 mínútum og varð í 23. sæti í undankeppninni en tólf efstu fóru áfram í úrslit. Hafdís stökk lengst 6,34 metra og varð í 16. sæti en hefði þurft að enda á meðal átta efstu til þess að komast áfram í úrslit.

Stórmót ungmenna

Í flokki ungmenna fór fram EM U23 og EM U20 í sumar. Á EM U23 áttu Íslendingar þrjá fulltrúa, Andrea Kolbeinsdóttir, Dagbjartur Daði Jónsson og Irma Gunnarsdóttir. Thelma Lind Kristjánsdóttir, Íslandsmethafi í kringlukasti, hafði einnig náð lágmarki á mótið en þurfti því miður að hætta við þátttöku vegna meiðsla. Dagbjartur náði bestum árangri af íslensku keppendunum og endaði í sjötta sæti í spjótkastinu með 76,30 metra kasti. Andrea keppti í 10.000 metra hlaupi og varð í tuttugasta sæti á tímanum 36:04,22 mínútum og Irma keppti í sjöþraut en tókst ekki að klára allar greinar.

Brons á EM U20

Evrópumeistaramótið undir 20 ára fór fram í Svíþjóð í júlí. Þar kepptu . Erna Sóley Gunnarsdóttir sem kúluvarpi, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í 200 metra hlaupi, Valdimar Hjalti Erlendsson í kringlukasti og Þórdís Eva Steinsdóttir í 400 metra hlaupi. Einnig höfðu Birna Kristín Kristjánsdóttir, Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Tiana Ósk Whitworth náð lágmarki á mótið. Birna og Elísabet tóku ekki þátt þar sem þær kepptu á Ólympíuhátið Evrópuæskunnar á sama tíma. Tiana Ósk keppti ekki vegna meiðsla.

Þrír af fjórum keppendum Íslands komust í úrslit í sinni grein en bestum árangri náði Erna Sóley þegar hún fékk brons í kúluvarpi. Í annarri umferð kastaði 15,41 metra og var í fjórða sæti fram að sjötta og síðasta kasti sínu. Þegar þrjár umferðir voru búnar fór að hellirigna og áttu margir í erfiðleikum með að fóta sig í blautum kasthringnum. Lengsta kast Ernu kom hins vegar í síðasta kasti þegar hún kastaði 15,65 metra og kom sér upp í þriðja sætið.

Erna Sóley Gunnarsdóttir

Guðbjörg Jóna átti enn eitt frábært stórmótið þegar hún náði fjórða sætinu í 200 metra hlaupinu. Guðbjörg kom í mark á 23,64 sekúndum sem er frábær tími og sérstaklega miðað við það að mótvindur í hlaupinu var 1,7 m/s. Guðbjörg var ansi nálægt því að enda í verðlaunasæti en aðeins 1/100 úr sekúndu munaði á henni og þeirri sem fékk bronsið og 4/100 úr sekúndu í silfrið.

Valdimar Hjaldi varð níundi inn í tólf manna úrslit og í úrslitunum kastaði hann lengst 55,75 metra og hafnaði í tólfta sæti. Í 400 metra hlaupinu kom Þórdís Eva í mark á 56,70 sekúndum og varð 7. í sínum riðli og 26. í heildina. Alls komust sextán keppendur áfram í undanúrslit og hefði Þórdís þurft að hlaupa hraðar en 55,45 sekúndur til þess að komast áfram.

Tíu í topp 50 í Evrópu

Þegar topp listar í Evrópu eru skoðaðir í lok árs má sjá að tíu Íslendingar eru á meðal fimmtíu efstu í sinni grein. Þar er Hilmar Örn Jónsson efstur þar sem hann er fjórtándi í lóðkasti innanhúss. Hann er einnig á listanum fyrir Íslandsmet sitt í sleggjukasti þar sem hann er 26. sæti. Ásdís er á listanum í þremur greinum. Besti árangur hennar er fyrir spjótkast þar sem hún er í 25. sæti og svo kemst hún einnig á listann fyrir árangur sinn í kúluvarpi bæði innanhúss og utanhúss. 

 • Hilmar Örn Jónsson – 14. sæti – Lóðkast
 • Guðni Valur Guðnason – 19. sæti – Kringlukast 
 • Hafdís Sigurðardóttir – 21. sæti – Langstökk innanhúss
 • Ásdís Hjálmsdóttir – 25. sæti – Spjótkast
 • Hilmar Örn Jónsson – 26. sæti – Sleggjukast
 • Trausti Þór Þorsteins – 35. sæti – Míluhlaup innanhúss
 • Ásdís Hjálmsdóttir – 40. sæti – Kúluvarp utanhúss
 • Ásdís Hjálmsdóttir – 41. sæti – Kúluvarp innanhúss
 • Aníta Hinriksdóttir – 44. sæti – 800 metrar innahúss
 • Dagbjartur Daði Jónsson – 45. sæti – Spjótkast
 • Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir – 48. sæti – 200 metrar innanhúss
 • Hlynur Andrésson – 49. sæti – 3000 metrar innanhúss
 • Erna Sóley Gunnarsdóttir – 50. sæti – Kúluvarp innanhúss

Sex ungmenni í topp 10 í Evrópu

Þegar listi yfir bestu árangra 2019 eru skoðaðir í aldursflokkum má sjá að hér á landi eru nokkrir mjög efnilegir unglingar. Alls eru sex unglingar og ungmenni í topp tíu í Evrópu sem er mjög góður árangur. Þar má meðal annars nefna Kristján Viggó Sigfinnson sem er í 4. sæti fyrir árangur sinn í hástökki þegar hann varð Norðurlandameistari 19 ára og yngri. Hann stökk yfir 2,13 metra sem var 10 sentimetra bæting og jöfnun á piltameti 16-17 ára sem Einar Karl Hjartarson setti árið 1997 og var því orðið 22 ára gamalt.

 • Elísabet Rut Rúnarsdóttir – 2. sæti – Sleggjukast – U18
 • Elísabet Rut Rúnarsdóttir – 2. sæti – Sleggjukast 3 kg – U18
 • Erna Sóley Gunnarsdóttir – 4. sæti – Kúluvarp utanhúss – U20
 • Kristján Viggó Sigfinnsson – 4. sæti – Hástökk utanhúss – U18
 • Erna Sóley Gunnarsdóttir – 5. sæti – Kúluvarp innanhúss – U20
 • Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir – 6. sæti – 200 metrar utanhúss – U20
 • Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir – 8. sæti – 100 metrar utanhúss – U20
 • Valdimar Hjalti Erlendsson – 8. sæti – Kringlukast – U20
 • Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir – 9. sæti – 200 metrar innanhúss – U20
 • Dagbjartur Daði Jónsson – 10. sæti – Spjótkast – U23
Kristján Viggó Sigfinnson

Frjálsíþróttafólk ársins 2019

Árið 2019 hefur verið frábært fyrir íslenskar frjálsíþróttir. Mörg afrek voru unnin auk þeirra sem nefnd hafa verið hér að ofan. Sindri Magnússon vann til bronsverðlauna í tugþraut 20-22 ára á Norðurlandameistaramótinu í fjölþrautum, María Rún Gunnlaugsdóttir fékk bronsverðlaun á Evrópubikar í fjölþrautum og Hlynur Andrésson silfur á NM í víðavangshlaupum. Fjölmörg aldursflokkamet voru sett og margir sem hlutu verðlaun á alþjóðlegum mótum svo sem á Smáþjóðaleikunum og Bauhaus Junioren Gala. Á bikarkeppni FRÍ sigraði ÍR innanhúss en FH fór með sigur af hólmi utanhúss. Í nóvember var árið gert upp með uppskeruhátíð Frjálsíþróttasambandsins þar sem Hilmar Örn Jónsson og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir voru valin frjálsíþróttafólk ársins.

Guðbjörg Jóna og Hilmar Örn

Þó svo að 2019 hafi verið frábært þá má búast við því að 2020 verði enn betra. Mikið af okkar fólki er á uppleið og mun freista þess að bæta sig enn frekar á komandi ári. Stærsti viðburðurinn á sviði frjálsíþrótta eru Ólympíuleikarnir sem munu fara fram í lok júlí og byrjun ágúst á komandi ári. Þangað komast aðeins þeir allra bestu og ef okkar fólk heldur áfram uppteknum hætti er líklegt að þar munu nokkrir Íslendingar vera á meðal keppenda.

Við minnum á YouTube rás Frjálsíþróttsambands Íslands þar sem sjá má myndbönd og á Flickr þar sem sjá má myndir frá árinu 2019.